Úkraínskar fréttaveitur greindu frá því fyrr í dag, að Úkraínuher hefði náð að fella enn einn af hershöfðingjum Rússa. Reynist það rétt er það ellefti hershöfðingi Rússa sem deyr í átökunum.
Um er að ræða Andrei Dmitríeivits Símonov, undirhershöfðingja, en samkvæmt óstaðfestum heimildum á hann að hafa fallið í eldflaugaárás Úkraínuhers á stjórnstöð Rússa í borginni Isíum.
Samkvæmt heimildum Úkraínumanna telja þeir að fleiri háttsettir foringjar hafi farist í árásinni, en það hefur vakið athygli hversu margir af háttsettum liðsforingjum Rússa hafa fallið frá því að innrásin í Úkraínu hófst í febrúar.
Var ein ástæða þess talin vera sú, að vegna lélegra samskipta milli hersveita, neyddust herforingjarnir til þess að hætta sér framar á vígvöllinn, sem aftur setti þá í meiri lífshættu.