Rússar hafa flutt yfir milljón manns yfir landamærin

Yfir milljón manns hafa verið flutt yfir landamærin til Rússlands.
Yfir milljón manns hafa verið flutt yfir landamærin til Rússlands. AFP

Yfir milljón manns hafa verið flutt yfir landamærin frá Úkraínu til Rússlands frá því innrás Rússa hófst þann 24. febrúar síðastliðinn. Þetta staðfestir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa. BBC greinir frá.

Þá greindi Lavrov frá því í samtali við kínverska miðla að þúsundir útlendinga og íbúar af Donetsk og Luhansk svæðunum væru meðal þess fólks sem hefði verið flutt frá Úkraínu.

Yfirvöld í Úkraínu hafa sakað Rússa um að flytja fólk yfir landamærin gegn vilja sínum og halda þeim sem gíslum í Rússlandi.

Varaforsætisráðherra Úkraínu sagði í samtali við BBC í gær að yfirvöld í Moskvu hefðu reynt að skipta á almennum borgurum fyrir stríðsfanga, en slíkt er brot á Genfar-sáttmálanum.

Irena Vereshchuk, varaforsætisráðherra Úkraínu, sagði að almennir borgarar hefðu verið pyntaðir og að sögurnar sem þeir hefðu sagt væru hræðilegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert