Borgarar sem beðið hafa í Azovstal stálverksmiðjunni í Maríupol vikum saman eru nú loksins að komast frá borginni. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og alþjóðadeildar Rauða krossins hafa verið milliliðir í að koma fólkinu frá borginni segir í frétt á BBC.
Reuters fréttastofan hefur eftir rússneska varnarmálaráðuneytinu að 80 almennir borgarar hafi verið fluttir frá verksmiðjunni, en svæðið er síðasta virki Úkraínuhers í hafnarborginni.
Forseti Úkraínu Volodímír Selenskí sagði fyrr í dag að í kringum 100 almennum borgurum hafi verið bjargað úr borginni og að þeir séu á leið til borgarinnar Zaporizhzía sem er undir stjórn Úkraínu og er í 220 kílómetra fjarðlægð norðvestur af Maríupol.