Mislukkaður brandari stöðvaði kvikmyndatökur

Bill Murray ætlaði að vera fyndinn, en sú tilraun fór …
Bill Murray ætlaði að vera fyndinn, en sú tilraun fór á versta veg. AFP

Tökum á kvikmyndinni Being Mortal, þar sem leikarinn Bill Murray fer með aðalhlutverk, hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna kvörtunar af hálfu mótleikkonu vegna atviks sem kom upp milli þeirra. Murray tjáði sig um málið í sjónvarpsviðtali við CNBC í gær.

„Ég gerði svolítið sem mér fannst fyndið en því var ekki tekið á þann veg.“

Murray segist hafa eitt síðustu tveimur vikum í að hugsa um atvikið. „Heimurinn var öðruvísi þegar ég var að alast upp. Það sem mér fannst fyndið sem krakka, þykir ekki endilega fyndið í dag.“

Bjartsýnn á að ná sáttum

Searchlight Pictures er framleiðandi kvikmyndarinnar og eftir að mótleikkona Murray lagði fram kvörtun sína, var tekin ákvörðun um að stöðva tökur uns niðurstaða fengist í málið.

Aziz Ansari leikstýrir kvikmyndinni og skrifaði handritið, sem er bbyggt á samnefndri bók frá árinu 2014. Höfundur bókarinnar er Atul Gawande. Seth Rogen og Keke Palmer fara einnig með hlutverk í myndinni.

Murray kvaðst vera í samskiptum við mótleikkonu sína og er bjartsýnn á að þau muni ná sáttum.

„Við erum hrifin af vinnu hvors annars og okkur líkar vel við hvort annað, held ég,“ sagði hann og bætti við að það myndi gleðja hann mest að þau gætu bæði snúið aftur til vinnu.

Óviðeigandi hegðun

Í bréfi sem framleiðendurnir sendu starfsfólki sínu, og New York Times hefur undir höndunum, kemur fram að vegna kvörtunar, er lutu að óviðeigandi hegðun Murray, hafi verið ákveðið að fresta tökum um óákveðinn tíma.

Murray hefur í kjölfarið verið ásakaður um dónalega framkomu af hálfu leikkonunnar Lucy Liu, sem lék með honum í Charlie’s Angels árið 2000, og Richard Drefuss, sem lék á móti honum í kvikmyndinni What About Bob, frá árinu 1991.

Vill ekki vera sorgmæddur hvolpur

Murray telur að ef leikkonan og hann ná ekki að sættast og skapa traust á milli sín, sé enginn grundvöllur fyrir frekara samstarfi.

“Sá hvolpur er sorgmæddur, sem getur ekki lengur lært nýja hluti, ég vil ekki vera sá hvolpur og ætla mér ekki að vera hann,” bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert