Fluttir út úr borginni af ótta við Covid

Lögreglumaður í sóttvarnabúningi á gangi um hverfið Jing'an í Sjanghæ.
Lögreglumaður í sóttvarnabúningi á gangi um hverfið Jing'an í Sjanghæ. AFP

Hundruðum þúsunda íbúa borgarinnar Sjanghæ í Kína sem hafa greinst með Covid-19 hefur verið gert að dvelja í sóttvarnamiðstöðvum sem komið hefur verið upp til bráðabirgða. Ástæðan er sú að þeir mega ekki vera heima hjá sér í einangrun.

25 milljónir manna búa í Sjanghæ og hafa flestir þeirra verið heima hjá sér í margar vikur vegna hertra samkomutakmarkana í kjölfar mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar.

Sumum íbúum sem hafa greinst neikvæðir hefur einnig verið gert að yfirgefa heimili sín og þeir fluttir út úr borginni.

Lögreglubíll ekur um hverfið Jing'an í Sjanghæ.
Lögreglubíll ekur um hverfið Jing'an í Sjanghæ. AFP

Þvinguð um borð í rútur

Einn þessara íbúa, Lucy, sagði að hún og nágrannar hennar hafi verið þvinguð um borð í rútur og þeim ekið mörg hundruð kílómetra í burtu frá Sjanghæ, þar sem útgöngubann ríkir, yfir í sóttvarnamiðstöð.

„Lögreglan sagði okkur að það væru of mikið af jákvæðum tilfellum í okkar nærumhverfi og ef við héldum áfram að búa þar þá myndum við sýkjast,“ sagði Lucy við AFP-fréttastofuna, en hún vildi ekki láta birta eftirnafn sitt.

Hún sagði að þeir sem höfðu greinst neikvæðir hafi verið sendir á sóttvarnasvæði með mörg hundruð eins herbergja kofum í nágrannahéraðinu Anhui, um 400 kílómetra í burtu. Upphaflega hafi ekki verið ljóst hvert leiðinni var heitið.

Lucy bætti við að hún vissi ekki hvenær hún getur farið aftur heim til sín.

Frá Jing'an í Sjanghæ.
Frá Jing'an í Sjanghæ. AFP

Urðu mjög hrædd

AFP ræddi við fleiri íbúa Sjanghæ sem sögðu að heilbrigt fólk sem býr á sama svæði sem hefur ekki greinst með kórónuveiruna hafi verið flutt í önnur héruð í sóttkví.

Einn sagði að nágrannar hans hafi mótmælt og neitað að fara með.

Kona frá hverfinu Jing‘an í borginni sagðist hafa verið numin á brott, ásamt tugum annarra sem búa á sama svæði, og þau flutt í eins herbergis sóttkvína í Anuhi seint að kvöldi.

„Við fengum símhringingu frá hverfisnefndinni sem sagði að það væru og mörg jákvæð tilfelli í okkar nærumhverfi og að það þyrfti að flytja þá sem eru neikvæðir í einangrun á hótel,“ sagði íbúinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið.

Hún segir þau hafa orðið mjög hrædd þegar þau sáu bráðabirgðahúsnæðið sem þeim var boðið upp á og að þau hafi „misst trúna á stjórnvöldum í Sjanghæ“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert