Ísraelar fordæma ummæli um gyðingablóð Hitlers

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði gyðinga oft vera verstu gyðingahatarana.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði gyðinga oft vera verstu gyðingahatarana. AFP/EVGENIA NOVOZHENINA

Yair Lapid, utanríkisráðherra Ísraels, segir að ummæli sem Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands lét falla um að „gyðingablóð hafi runnið um æðar“ Adolf Hitler séu ófyrirgefanleg.

Lavrov lét ummælin falla er hann reyndi að færa rök fyrir því að nasismi gæti vel verið útbreiddur í Úkraínu þrátt fyrir að Volodimír Selenskí, forseti landsins, sé gyðingur og vísaði þannig í ættbók Hitlers. 

Utanríkisráðuneyti Ísraels kallaði sendiherra Rússlands til sín í kjölfarið þar sem farið var fram á skýringar á orðfærinu og afsökunarbeiðni á ummælunum. 

Nasistar í Þýskalandi myrtu yfir sex milljónir gyðinga í Helförinni í seinni heimsstyrjöldinni. 

Ummæli Lavrovs féllu í viðtali við ítölsku sjónvarpsstöðina Zona Bianca á sunnudaginn, örfáum dögum eftir minningardag Helfararinnar, sem heita má helgidagur gyðinga í Ísrael. 

Lavrov var í viðtalinu spurður hvernig hann gæti fullyrt að Rússar væru að reyna að kveða niður nasisma í Úkraínu þar sem Selenskí, er sem fyrr segir, sjálfur gyðingur. Því svaraði Lavrov: „Hvað með það, þó að Selenskí sé gyðingur? Sú staðreynd kemur ekki í veg fyrir að nasismann í Úkraínu. Var það ekki svo, að gyðingablóð rann um æðar Hitlers?“. 

Við þetta bætti Lavrov að oft væru það gyðingar, sem væru verstu gyðingahatararnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert