Rússar áforma að innlima Donetsk- og Lúhansk-héröð í Rússland nú þegar þeim hefur mistekist að steypa ríkisstjórninni í Kænugarði af stóli, að sögn háttsetts bandarísks embættismanns.
Héröðin eru á Donbas-svæðinu í austurhluta Úkraínu þar sem rússneskar hersveitir hafa sótt í sig veðrið á síðustu dögum. Talið er að Vladimír Pútín vilji skapa landbrú milli Rússlands og Krímskaga undir stjórn Rússa. Héröðin eru undir stjórn aðskilnaðarsinna sem eru hliðhollir Rússum.
„Samkvæmt nýjustu upplýsingum þá trúum við að Rússar muni reyna að innlima Alþýðulýðveldið Donetsk og Alþýðulýðveldið Lúhansk í Rússland,“ sagði Michael Carpenter, sendiherra Bandaríkjanna hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
Að sögn Carpenter þá segir í skýrslum Rússa að búið sé að gera ráð fyrir atkvæðagreiðslu um inngöngu héraðanna um miðjan maí.