Trump hafi viljað skjóta mótmælendur

Donald Trump á fundi með stuðningsmönnum í Greenwood í Nebraska …
Donald Trump á fundi með stuðningsmönnum í Greenwood í Nebraska í gær. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var bálreiður út í mótmælendur fyrir utan Hvíta húsið árið 2020 og sagði við það tækifæri: „Getið þið ekki bara skotið þá?“, að því er kemur fram í nýrri bók fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark Esper.

Esper segist hafa verið staddur á forsetaskrifstofunni ásamt „forsetanum rauðum í framan og kvartandi mjög yfir mótmælum í Washington“ eftir að lögreglumaður drap hin þeldökka George Floyd.

„Getið þið ekki bara skotið þá? Bara skotið þá í fótleggina eða eitthvað?“ hefur Esper eftir forsetanum í endurminningum sínum.

Mótmælin, þar sem mótmælendur og öryggissveitir tókust á, voru hluti af mótmælaöldu víðsvegar um Bandaríkin vegna drápsins á Floyd í maí árið 2020.

Mark Esper, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Mark Esper, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Skrif Espers virðast staðfesta fyrri frásagnir um að Trump hafi viljað að herinn skærist í leikinn til að kæfa mótmælin niður.

Í bók sem áður hefur komið út eftir blaðamanninn Michael Bender segja heimildarmenn að formaður herráðs Bandaríkjanna, Mark Milley, hafi ráðið Trump frá því að beita hernum gegn mótmælendum þegar forsetinn krafðist aukinna viðbragða.

Í þeirri bók er Trump sagður hafa sagt: „Skjótið þá í fótleggina - eða kannski í fæturna....en látið þá finna fyrir því!“

Bandaríska lögreglan og þjóðvarðliðið beittu táragasi og leiftursprengjur [e. flash bangs] til að stöðva mótmælendurna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert