Handtóku 200 mótmælendur

Lögreglan í Armeníu hefur handtekið yfir 200 manns sem höfðu uppi mótmæli gegn ríkisstjórn landsins.

Stjórnarandstöðuflokkar hafa sett aukinn þrýsting á forsætisráðherrann Nikol Pashinyan vegna meðhöndlunar hans á deilu við Aserbaídsjan um landsvæði.

Mótmæli brutust út í höfuðborginni Jerevan á sunnudaginn þar sem afsagnar Pashinyan var krafist. Hann var sakaður um að ætla að láta af hendi héraðið Nagorno-Karabakh í heild sinni til Aserbaídsjan en löndin tvö fóru í stríð vegna þess árið 2020.

Mótmælin héldu áfram í gær. Í dag hafði lögreglan síðan hendur í hári mótmælenda sem höfðu stöðvað umferð í miðborg Jerevan.

Að sögn innanríkisráðuneytisins voru 206 mótmælendur handteknir í Jerevan og þó nokkrum nærliggjandi borgum.

Mótmælin endurspegla óánægju með leiðtogahæfni Pashinyan eftir sex vikna stríðið árið 2020 sem varð yfir 6.500 manns að bana áður en því lauk með vopnahléi sem Rússar höfðu milligöngu um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka