Rússneski herinn ræðst af miklu afli á Asovstal

Ríflega 100 manns var bjargað úr verksmiðjunni um helgina.
Ríflega 100 manns var bjargað úr verksmiðjunni um helgina. AFP

Rússneski herinn sagði í dag að sveitir hans og rússneskir aðskilnaðarsinnar væru að beita stórskotaliði sínu og flugher gegn Asovstal stálverksmiðjunni í úkraínsku borginni Maríupol. Þar eru úkraínskir hermenn staddir, og eru þeir nokkurn veginn hinir síðustu í borginni. 

Rússneska varnarmálaráðuneytið ásakaði hermennina um að nota vopnahlé á svæðinu til þess að komast á nýjan leik í bardagastöður sínar í verksmiðjunni. 

Gervihnattamynd sýnir Asovstal stálverksmiðjuna úr lofti.
Gervihnattamynd sýnir Asovstal stálverksmiðjuna úr lofti. AFP

„Með því að nota stórskotalið okkar og flugher eru rússneski herinn og aðskilnaðarsinnar í Dónetsk byrjaðir að brjóta á bak aftur skotstöðvar úkraínskra hermanna,“ segir í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneytinu sem rússneskir miðlar birtu. 

Maríupol er ein af þeim úkraínsku borgum sem hefur orðið hvað verst úti í stríðinu. 

Að sögn úkraínskra stjórnvalda var ríflega 100 manns bjargað úr stálverksmiðjunni um helgina. Þar hafa hermenn og almennir borgarar leitað skjóls í göngum neðanjarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert