Yfirvöld í Rússlandi segja að hersveitir sínar hafi í dag haldið æfingar í Kalíningrad-héraðinu, á milli Litháen og Póllands, þar sem eldflaugakerfi var notað sem getur skotið kjarnavopnum.
Tilkynningin um æfinguna barst nú á sjötugasta degi stríðsins í Úkraínu, en frá því að átökin hófust í febrúar hafa þúsundir látið lífið og yfir 13 milljónir hafa flúið heimili sín. Er þetta versta flóttamannakrísa sem verið hefur uppi í Evrópu frá síðari heimsstyrjöld.
Frá því að stríðið hófst hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti gefið í skyn að Rússar gætu gripið til kjarnavopna í stríðinu ef í harðbakka slær.
Í yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins kemur fram að Rússar hafi í dag æft eldflaugakerfi við Eystrasaltið sem býr yfir hæfni til að skjóta kjarnavopnum.
Hersveitir æfðu margvíslegar árásir á skotmörk sem líktu eftir flugvöllum, vernduðum innviðum, hernaðargögnum og óvininum.
Eftir að hafa framkvæmt „rafrænu“ skotin, breyttu hermennirnir um staðsetningu í æfingunni til að forðast mögulega gagnárás óvinarins.
Þá fóru einnig fram æfingar sem tengdust aðgerðum í aðstæðum við „geislun og efnamengun“. Yfir hundrað hermenn tóku þátt.