Ógnarverk Rússa í Úkraínu

Í Irpin norðvestur af Kænugarði hafa íbúðahverfi verið lögð í …
Í Irpin norðvestur af Kænugarði hafa íbúðahverfi verið lögð í rúst. AFP/Genya Savilov

Eftir því sem lengra líður frá því að Rússar hörfuðu frá ákveðnum svæðum í Úkraínu kemur umfang óhæfuverka þeirra betur í ljós, aftökur án dóms og laga, rán og gripdeildir og eyðilegging. Breski blaðamaðurinn Tim Judah hefur verið í Úkraínu frá því að innrás Rússa hófst og í Sunnudagsblaðinu lýsir hann ástandinu í landinu.

Í Karkív gekk hann fram hjá líkhúsinu þar sem nokkur hundruð lík lágu frosin í portinu fyrir utan. Þar fór hann ofan í neðanjarðarlestarstöð þar sem á milli 600 og 1.150 manns sofa á hverri nóttu vegna þess að heimili þess hafa verið ýmist verið eyðilögð eða þau gætu orðið eyðleggingu að bráð. Í borginni bjuggu fyrir stríðið 1,5 milljónir manna, en nú eru jafnvel ekki nema 300 þúsund manns eftir.

Judah fór til Bútja, Borodjanka og Hostomel.

„Þegar þeir voru í Bútsja hreiðruðu sumir rússnesku hermannanna um sig í búðum fyrir börn. Byggingarnar eru skreyttar með mósaíkmyndum frá Sovéttímanum. Á einni þeirra má sjá hamingjusöm börn í þjóðbúningum til marks um vináttu ólíkra Sovétþjóða. Hægt er að sjá hvernig Rússarnir lögðu þarna að minnsta kosti sex skriðdrekum. Bak við eina bygginguna höfðu hermennirnir búið til bráðabirgðaaðstöðu til að þvo sér með fötu, spegli, sem hafði verið negldur upp á vegg, og sápuskammtara. Þeir höfðu hróflað upp aðstöðu úr múrsteinum til að elda og skilið eftir hálfan brauðhleif á borði ásamt diskum og skálum, steikarpönnu og eldhússvampi. Þeir höfðu hent ruslinu í poka, sem flæddi upp úr, og mátti sjá að þeir drukku kók og mikið af mjólk. Þeir gerðu hins vegar enga tilraun til að taka til í kjallaranum í næsta húsi þar sem þeir höfðu skilið eftir lík fimm manna á gólfinu sem var á floti í blóði, vitnisburður um að þeir hefðu verið teknir af lífi. Þrír þeirra lágu hver ofan á öðrum.

Fjöldi vísbendinga er nú að koma fram um að Rússar …
Fjöldi vísbendinga er nú að koma fram um að Rússar hafi tekið fólk af lífi án dóms og laga. Þessi mynd var tekin 2. apríl. Lík Mikhaílos Kovalenkos liggur í götunni í Bucha eftir að rússneskir hermenn skutu hann til bana. Þegar hann kom að varðstöð Rússa í Jablúnska-götu fór hann út úr bílnum með hendur á lofti til að tala við varðmennina, að sögn Artems, kærasta dóttur hans. Engu að síður hófu hermennirnir skothríð, sögðu dóttir hans og eiginkona, sem lifðu af með því að forða sér á hlaupum. Talið er að Rússar hafi skotið um 20 manns í borgaralegum klæðum í götunni. AFP/Ronaldo Schemidt

Lögregluteymi kom til að ná í líkin úr kjallaranum og þegar var verið að setja þau í líkpoka klippti lögregluþjónn á plastböndin sem höfðu verið notuð til að binda hendur fjögurra þeirra. Höfuðið á að minnsta kosti einum þeirra var fallið saman eftir barsmíðar. Pútín hefur fullyrt að vettvangar á borð við þá sem ég og aðrir höfum komið að séu „falsaðir“ og bandamaður hans Aleksandr Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sagði að um væri að ræða „sálfræðiaðgerðir af hálfu Englendinga“.

Í Borodjanka og Hostomel hitti ég menn, sem sögðu mér að þeir hefðu verið handteknir, yfirheyrðir og orðið fyrir barsmíðum rússneskra hermanna. Volodimír Tsjúprína var í Hostomel. Hann er sextíu og tveggja ára og var enn með sár á úlnliðunum þar sem hann hafði verið bundinn. Hann sagðist hafa komið út úr húsi sínu meðan Rússar höfðu bæinn á valdi sínu þegar hermenn hefðu gripið hann, sett hettu yfir höfuð hans og haft hann í haldi í marga daga. Hann var látinn liggja á grúfu á gólfinu og var ekki viss um hvar hann hefði verið, en „kannski“ hefði það verið „á hóteli í Bútsja“ því þar hefði hann verið látinn laus. Kannski var hann í haldi í búðunum fyrir. Hann sagði að Rússarnir hefðu sakað sig um að segja úkraínska hernum hvar þeir hefðu tekið sér stöðu, þeir hefðu krafist nafna annarra, sem hefðu gert það, en hann sagðist ekki vita það. Þeir settu byssuhlaup að höfði hans og spurðu hvernig hann gæti hjálpað þeim.


Þegar ég hitti Tsjúprína var hann nýkominn af sjúkrahúsi þar sem kom í ljós að hann var rifbeinsbrotinn. „Þeir eru brjálað fólk,“ sagði hann um rússnesku hermennina. „Við ættum að drepa þá alla.““

Judah segir í grein sinni að efnahagur Úkraínu muni á þessu ári dragast saman um 45% að mati Alþjóðabankands, jafnvel þótt stríðið yrði stöðvað í dag. Hagfræðiskólinn í Kænugarði meti það svo að eyðileggingin af völdum Rússa megi meta á 600 milljarða dollara eða 80 billjónir króna.

Grein Judah má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert