„Ef þú ert góð manneskja og sérð að vondir hlutir séu að gerast ættir þú að stoppa þá, ekki hunsa þá.“
Þetta sagði úkraínski undirforinginn Illia Samoilenko á alþjóðlegum blaðamannafundi sem haldinn var með aðstoð fjarskiptaforritsins Zoom fyrr í dag. Fjarfundurinn stóð yfir í um tvo og hálfan klukkutíma en átti það til að frjósa þar sem að internetsambandið í Úkraínu var óstöðugt. Blaðamaður mbl.is sat fundinn.
Samoilenko sem er meðal innilokaðra hermanna í stálverksmiðjunni Azovstal í borginni Maríupol. Rússar hafa neitað að hleypa úkraínskum hermönnunum á brott nema þeir leggi niður vopn en því hafa úkraínskar hersveitir neitað.
Samoilenko segir úkraínsk stjórnvöld hafa brugðist þeim – þeir hafi verið yfirgefnir. „Við höfum verið skildir eftir einir.“
Með Samoilenko var herforinginn Svyatoslav Palamar og tók hann fyrstur til máls en þurfti svo skyndilega að hlaupa af fundinum.
Palamar ræddi meðal annars um hvernig tekist hafi að flytja fólk úr verksmiðjunni.
Sagði hann að við flutning fólksins hafi bæði úkraínskir hermenn og borgarar látist, því sé ekki rétt að segja að aðgerðin hafi heppnast vel.
Spurður hversu margir hermenn og borgarar væru eftir í verksmiðjunni vildi Samoilenko ekki gefa það upp af öryggisástæðum.
Samoilenko segir stríðið í raun hafa byrjað fyrir 24. febrúar og að hann og hans fólk hafi löngu verið byrjað að undirbúa sig undir átökin.
Spurður hvaða möguleikar séu nú fyrir hendi þar sem að þeir eru innilokaðir nefnir Samoilenko að auðvitað gætu þeir lagt niður vopn og beðið dauðans en ef þeir vilji lifa skammlausu lífi og því muni þeir ekki gefast upp.
Jafnframt segir hann að þeir séu ekki einungis að berjast fyrir Úkraínu heldur einnig fyrir frjálsum heimi. Skyldi stríðið fara þannig að Rússar nái allri Úkraínu á sitt vald muni þeir ekki stoppa þar, þeir muni fikra sig áfram inn í Evrópu.
Skyldu þeir leggja niður vopn segir Samoilenko að Rússar myndu ekki hika við að drepa þá þar sem að þeir hafi drepið rússneska hermenn sem Úkraínuher hafi náð á sitt vald. „Þeir hugsa ekki eins og venjulegt fólk,“ segir hann.
„Við viljum ekki að þeir deyi og það verði bara eftir hetjulegar sögur um þá,“ sagði Kateryna Prokopenko sem er eiginkona eins hermanns í verksmiðjunni.
Prokopenko vill sjá Volodimír Selenskí forseta Úkraínu setja meiri pressu á Rússa um að hleypa hermönnunum burt úr verksmiðjunni.