„Það er enn verið að leita að fólki í rústunum en væntingar um að finna einhvern á lífi fara auðvitað dvínandi. Allt þarna er meira og minna hrunið,“ segir Björn Halldórsson, sem er staðsettur í Havana, í samtali við mbl.is.
Eins og greint hefur verið frá varð öflug sprenging á hóteli í borginni á föstudaginn.
Tala látinna heldur áfram að hækka en nú eru staðfest andlát 40 talsins. Að sögn Björns er enn nokkurra leitað.
Björn býr í um 200 metra fjarlægð frá hótelinu þar sem sprengingin átti sér stað. Hann segir andrúmsloftið í hverfinu skrítið.
„Andrúmsloftið í hverfinu er skrítið. Lífið heldur áfram sinn vanagang hjá flestum, en við erum með þetta fyrir framan okkur. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu.“
Í næsta húsi við hótelið er skóli. Björn segir skólann hafa orðið fyrir talsverðu tjóni.
„Skólinn hrundi sem betur fer ekki, en þar varð samt tjón. Ég hef séð myndir þaðan og það var auðvitað allt út um allt.“
Þá sé einnig íbúðarhús við hlið hótelsins að hálfu hrunið.