Guterres brugðið við fregnirnar

AFP/Sergei Súpinskí

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu sagði að sextíu manns hefðu látist í skóla í Austur-Úkraínu eftir loftárás Rússa á fjarfundi G7-ríkjanna í dag.

Antonio Guterres, aðalritara SÞ, var brugðið við fregnirnar en talsmaður hans sagði að „almennum borgurum, heimilum og þjónustustofnunum yrði alltaf að hlífa á stríðstímum“.

Ákveðið var að minnka kaup á rússnesku eldsneyti á G7-fjarfundinum í dag með það í huga að hætta alfarið öllum kaupum á eldsneyti frá Rússlandi. 

Frá Hvíta húsinu í Washington komu einnig þær fréttir að refsibann væri nú sett á þrjár stærstu rússnesku sjónvarpsstöðvarnar og einnig yrði rússneskum fyrirtækjum og olígörkum bannað að nýta sér bandarísk ráðgjafa- og bókhaldsfyrirtæki.

Forsetafrú Bandaríkjanna, Jill Biden, er í Úkraínu, en ekki var tilkynnt um heimsóknina fyrr en hún átti sér stað í dag. Hún hitti forsetafrú Úkraínu, Olenu Selensku, í Úsjorod sem er lítil borg í suðvesturhluta landsins. 

Á sama tíma var Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, í heimsókn í Irpín þar sem hann sá eyðilegginguna á borginni og sagði í heimsókninni að Vladimír Pútín væri „ábyrgur fyrir hryllilegum stríðsglæpum“.

Síðustu hermennirnir í Asovstal-stálverksmiðjunni í hafnarborginni Maríupol, sem er á valdi Rússa, heita því að berjast til síðasta manns. Úkraínsk yfirvöld hafa sagt að allar konur, börn og eldri borgarar hafi verið flutt frá borginni með hjálp Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins.

Átta vagnar með 174 borgurum frá Maríupol, þar af 40 frá Asovstal, komu í dag til Saporisjíu

Severódonetsk síðasta vígið í Lúhansk

Hermenn Úkraínu eru að reyna að halda völdum í borginni Severódonetsk sem er nánast umkringd af Rússum. Ef borgin fellur í hendur Rússa, gefur það þeim í reynd full yfirráð yfir Lúhansk-héraðinu. Úkraínskur embættismaður á svæðinu segir fimmtán þúsund borgara enn í borginni.

Sigurganga Rússa í Moskvu er áætluð á morgun, mánudag, til að minnast sigurs Sovétríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni. Búist er við að dregin verði upp mynd af miklum hermætti Rússlands á sama tíma og ekki sér fyrir endann á stríðinu í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert