Flugvél sem ætlaði að lenda í Mexíkóborg hætti við á síðustu stundu til að koma í veg fyrir árekstur við aðra flugvél sem var á flugbrautinni.
Forstjóri mexíkóska lággjaldaflugfélagsins Volaris greindi frá þessu.
Í myndbandi á samfélagsmiðlum sést til þessara tveggja Airbus-flugvéla Volaris á laugardagskvöld.
Atvikið átti sér stað á flugvellinum Benito Juarez, sem er sá fjölfarnasti í Rómönsku-Ameríku.
Ekki kemur fram í tilkynningu frá Volaris á hvaða ferðalagi flugvélarnar voru, nákvæmar tegundir flugvélanna eða hversu margir farþegar voru um borð.
„Þökk sé góðrar þjálfunar flugmanna okkar...enginn farþegi eða úr áhöfninni var í hættu þegar atvikið varð kvöldið 7. maí,“ sagði Enrique Beltranea, forstjóri Volaris, á Twitter.
Mexíkóskir fréttamiðlar greindu frá því að embættismaður í samskiptaráðuneytinu, sem gerði breytingar á leiðum flugumferðar til að Mexíkóborg gæti haldið úti tveimur flugvöllum, hafi sagt upp störfum.
Fyrri stjórnvöld í Mexíkó hófu byggingu á nýjum flugvelli í Texcoco, úthverfi borgarinnar, vegna mikillar flugumferðar á Benito Juares-flugvellinum.
Forsetinn Andres Manuel Lopez Obrador lagði þau áform á hilluna eftir að hann tók við völdum og ákvað frekar að breyta herstöð í flugvöll. Starfsemi hans er aftur á móti takmörkuð.
Flugsérfræðingar hafa gagnrýnt að tveir flugvellir séu starfræktir í borg sem er umkringd fjöllum og staðsett 2.200 metrum yfir sjávarmáli.