Halda sig heima þrátt fyrir fá smit

Öryggisverðir ganga meðfram götu í Peking.
Öryggisverðir ganga meðfram götu í Peking. AFP

Þrátt fyrir að einungis 49 kórónuveirusmit hafi greinst í Peking, höfuðborg Kína, í dag hafa stjórnvöld mælst til þess að íbúar í Chaoyang hverfi, fjölmennasta hverfi borgarinnar, haldi sig heima. Milljónir fylgdu þeim fyrirmælum í morgun og var svæðið, sem gjarnan er afar líflegt, því tómlegt. 

Smitbylgja gengur nú yfir Kína og hefur hún leikið Sjanghæ sérstaklega illa en þar eru harðar sóttvarnatakmarkanir í gildi. Þeim hefur verið mótmælt en í þessari bylgju Ómíkron-smita hafa 500 látist í borginni, samkvæmt opinberum gögnum.

Í Peking voru neðanjarðarlestarstöðvar tómar á álagstímanum í morgun, rétt eins og flestar skrifstofubyggingar en mælst er til þess að fólk haldi sig heima ef það sinnir ekki framlínustörfum. 

Bannað að panta ónauðsynlegar vörur

Hundruð smita hafa greinst í Peking á síðustu vikum. Þó smitfjöldinn sé tiltölulega lágur er hann nægur til þess að stjórnvöld hafi ákveðið að grípa til takmarkana. Er stefnan í Kína enn að halda smitum í algjöru lágmarki á meðan stefnunni hefur verið breytt víða annars staðar, til dæmis hér á Íslandi þar sem stjórnvöld hafa svo gott sem hætt að líta til smitfjöldans og aflétt öllum sóttvarnatakmörkunum.

Í Sjanghæ er staðan öllu verri en í Peking. Þar hefur útgöngubann verið sett á víða. Hefur íbúum verið skipað að fara ekki út fyrir hússins dyr nema vegna kórónuveirusýnatöku næstu vikuna og hefur þeim sömuleiðis verið bannað að panta „ónauðsynlegar“ heimsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert