Mahinda Rajapaksa, forsætisráðherra Sri Lanka, hefur sagt af sér embætti eftir að stjórnmálamenn meirihlutans myrtu mótmælendur.
Samfélagsmiðlabann hefur verið í gildi í landinu í rúman mánuð og skortur er á mat, eldsneyti og öðrum nauðsynjavörum. Mesta efnahagslægð í sögu landsins ríður yfir, frá því það öðlaðist sjálfstæði árið 1948.
Þingmaðurinn Amarakeerthi Athukorala skaut á mótmælendur sem hindruðu að hann kæmist að bílnum sínum, með þeim afleiðingum að einn lést og tveir særðust. Þingmaðurinn svipti sig svo lífi eftir að hafa verið umkringdur af hópi mótmælenda, að sögn lögreglu.
Annar stjórnmálamaður meirihlutans, sem hefur ekki verið nafngreindur, hóf skothríð á mótmælendur í bænum Weeraketiya í suðurhluta landsins. Að sögn lögreglu myrti hann tvo og særði fimm.
Mótmælin hafa hingað til að mestu farið friðsamlega fram en í dag rétuðst stuðningsmenn forsetans og forsætisráðherrans, sem eru bræður, á óvopnaða mótmælendur fyrir utan skrifsstofu forsetans.
„Við vorum lamin, fjölmiðlafólk lamið, konur og börn voru lamin,“ sagði eitt vitni sem vildi ekki koma fram undir nafni við fréttastofu AFP.
Talið er að um 181 manns hafi verið fluttir á sjúkrahús.
Gotabaya Rajapaksa, forseti landsins, hefur fordæmt ofbeldið á Twitter.