Reiður múgur á Sri Lanka brenndi í gær nokkur heimili til grunna sem tilheyra þingmönnum stjórnarflokka í landinu eftir að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar réðust á mótmælendur.
Mahinda Rajapaksa, forsætisráðherra Sri Lanka sagði af sér í gær vegna mótmæla. Lét fólk í sér heyra vegna þess hvernig Rajapaksa hefur tekið á efnahagskreppu í landinu.
Afsögn hans nægði þó ekki til þess að róa mótmælendur sem reyndu að brjótast inn á heimili hans á meðan hann var þar inni.
Sjö hafa látist í mótmælunum og fleiri en 190 slasast síðan þau hófust síðastliðinn mánudag.
Útgöngubann er í gildi þar til í fyrramálið og segjast yfirvöld vilja draga úr ofbeldinu með því.