Meðlimur Pussy Riot flúði til Íslands

Maria Alyokhina árið 2012.
Maria Alyokhina árið 2012. AFP

Maria V. Alyokhina, meðlimur rússneska andófshópsins og hljómsveitarinnar Pussy Riot, segir frá því í viðtali við New York Times hvernig hún flúði Rússland í kjölfar innrásar landsins í Úkraínu og kom til Íslands með hjálp listamannsins Ragnars Kjartanssonar.

Alyokhina og hljómsveit hennar Pussy Riot mótmæltu Vladimír Pútín forseta Rússlands árið 2012 og síðan þá hefur hún sjö sinnum lent í fangelsi. Í apríl ákvað hún að það væri tími til kominn að flýja landið en það átti að senda hana á hegningarnýlendu. Hún dulbjó sig því sem matarsendil og flúði Rússland.

Vinur hennar keyrði hana að landamærum Hvíta Rússlands og var hún viku að komast til Litháen. Tugþúsundir Rússa hafa nú flúið landið.

Meðlimir Pussy Riot með einkennisgrímur sínar. Maria Alyokhina er til …
Meðlimir Pussy Riot með einkennisgrímur sínar. Maria Alyokhina er til hægri á myndinni. AFP

Ónefnt land gaf út ferðaáritun fyrir Alyokhinu að beiðni Ragnars

Það tók Alyokhinu þrjár tilraunir að komast úr Hvíta Rússlandi en í þriðju tilraun fékk hún aðstoð frá Ragnari en segir í greininni að hann hafi sannfært evrópskt land til að að gefa út ferðaáritun fyir Alyokhinu sem gæfi henni stöðu evrópsks ríkisborgara. Ekki er tekið fram hvaða land það er að ósk yfirvalda þess.  

Árituninni var smyglað inn í Hvíta Rússland fyrir Alyokhinu en þar forðaðist hún hótel og aðra staði þar sem hún hefði þurft að sýna skilríki.

Ragnar Kjartansson.
Ragnar Kjartansson. mbl.is/Einar Falur

Nokkrum dögum eftir að hún komst inn í Litháen ferðaðist hún til Íslands ásamt öðrum meðlimum sveitarinnar til að heimsækja Ragnar.

Alyokhina segist vona að hún eigi afturkvæmt til Rússlands en hún veit ekki hvenær það verður. Þá er haft eftir henni í viðtalinu: „Ef hjarta þitt er frjálst, þá skiptir ekki máli hvar þú ert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert