Hætta að flytja gas í gegnum landamærin

Evrópubúar nota gjarnan rússneskt gas og getur ákvörðunin því haft …
Evrópubúar nota gjarnan rússneskt gas og getur ákvörðunin því haft áhrif á margar Evrópuþjóðir. AFP

Rekstraraðili jarðgasnets Úkraínu gaf það út í gær að fyrirtækið myndi hætta að flytja rússneskt gas um landamæri landanna tveggja í austri. 

Frá og með deginum í dag ætlar fyrirtækið að hætta að taka við rússnesku gasi við landamærin. Ástæðan er sú, að sögn fyrirtækisins, að Rússar hafa truflað tæknilega ferla í gasverksmiðjum og með því stofnað „stöðugleika og öryggi alls úkraínska gasflutningskerfisins í hættu.“

Rússneskir hermenn hafa hernumið landsvæði í austurhluta Úkraínu sem leiðslan liggur um. 

Fyrirtækið hefur gefið út að þessi ákvörðun þess gæti haft þau áhrif að lokað verði fyrir flutning um þriðjung gassins sem flutt er frá Rússlandi í gegnum Úkraínu. Þó er enn möguleiki á að flytja gasið í gegnum annan flutningsstað. 

Hefur tilkynningin komið mörkuðum í uppnám.

Árið 2019 sá Rússland Evrópuþjóðum fyrir 41% alls innflutts jarðgass. Ítalía og Þýskaland flytja inn mest gas frá Rússlandi og eru því sérstaklega viðkvæm fyrir öllum breytingum á flutningi þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert