Upptökur úr öryggismyndavél sýna rússneska hermenn skjóta tvo óvopnaða Úkraínumenn í bakið rétt fyrir utan Kænugarð. Úkraínskir saksóknarar rannsaka nú málið sem stríðsglæp.
Atvikið átti sér stað þann sextánda mars.
CNN birti myndbandsupptökurnar, en þar má sjá rússneska hermenn koma að tali við úkraínska menn á bílasölu, annar þeirra var eigandi og hinn var öryggisvörður.
Þeir ræða málin sín á milli og sjást jafnvel kveikja upp í sígarettu. Hermennirnir yfirgefa svo svæðið og mennirnir snúa í gagnstæða átt.
Þá koma tveir rússneskir hermenn aftur og skjóta mennina tvo í bakið. Eigandinn dó samstundis en öryggisverðinum tókst að koma sér í skjól. Þar fannst hann þó látinn nokkrum dögum seinna eftir að hafa blætt út.
Hermennirnir tóku því næst yfir skrifstofur bílasölunnar og áttuðu sig ekki á því að þeir væru á upptöku fyrr en það var um seinan. Þeir sjást róta í skúffum, taka af sér hlífðarbúnaðin, hella sér í glas og skála. Einn þeirra grípur dúskahúfu og mátar hana.
Í samtali við CNN kvaðst dóttir öryggisvarðarins ekki treysta sér til þess að horfa á myndbandið en hún ætlaði sér þó að varðveita það og sýna börnunum sínum einn daginn svo þau gleymi ekki hve óvægnir innrásarmennirnir voru.
„Þeir eru aftökumenn, þetta er skelfilegt því faðir minn var bara óbreyttur borgari, 68 ára gamall friðsæll og óvopnaður maður.“
Bandarísk yfirvöld sökuðu á þriðjudagskvöld Rússa um að hafa með valdi flutt á yfirráðasvæði sitt tugþúsundir Úkraínubúa, sem margir voru undir eftirliti Rússa vegna andstöðu þeirra við innrásina.
Ásakanir Bandaríkjanna styðja við fyrri frásagnir yfirvalda í Úkraínu sem telja að nærri 1,2 milljónir íbúa hafi verið fluttir til Rússlands eða á svæði undir valdi Rússa í Úkraínu. Úkraínsk yfirvöld segja Rússa halda úti svokölluðum „síunar-búðum“ þar sem rússneski herinn yfirheyrir Úkraínubúa sem hafa náðst.
Michael Carpenter, sendiherra Bandaríkjanna hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, segir að frásagnir vitna bendi til „grimmilegra yfirheyrsla“ í búðunum.
„Frásagnir af þessari grimmd og þvinguðum fólksflutningum eru að eiga sér stað núna í þessum töluðum orðum, og þessar gjörðir jafngilda stríðsglæpum,“ sagði Carpenter.
„Bandaríkin telja að sveitir Rússa hafi flutt hið minnsta nokkur þúsund Úkraínubúa til úrvinnslu í þessum „síunar-búðum“ og þvingað tugþúsundir til viðbóta til Rússlands eða á yfirráðasvæði Rússa, oft án þess viðkomandi fái upplýsingar um hvert hann eigi að fara,“ bætti Carpenter við. Talað er að nokkur þúsund hafi verið flutt frá Maríupol sem er nú rústir einar eftir mánaðalanga bardaga í borginni.
Carpenter hefur eftir vitnum að „allir voru hræddir um að vera teknir til Donetsk,“ svæði í austurhluta Úkraínu sem stjórnað er af aðskilnaðarsinnum.
Samkvæmt vitnum er fólk sem sakað er um að vera „úkraínskir nasistar“ sent til Donetsk til frekari yfirheyrsla eða aftöku.
Talið er að allt að 200 þúsund úkraínsk börn séu á meðal þeirra sem hafa verið þvinguð til flutninga til Rússlands.