Sauli Niinisto forseti Finnlands ræddi fyrr í dag við Vladimír Pútín Rússlandsforseta vegna mögulegrar aðildar Finna í Atlantshafsbandalagið (NATO). Búist er við að tilkynnt verði á morgun um að formlegt umsóknarferli sé hafið.
Að sögn Niinisto á símtalið að hafa verið af frumkvæði Finna, en hann lýsti því sem beinskeyttu og án ögrunar. Taldi hann mikilvægt að forðast alla spennu.
Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Kreml telur Pútín það vera mistök af hálfu Finna ætli þeir sér að binda enda á hernaðarlegt hlutleysi sitt, sérstaklega þar sem landinu stafaði ekki ógn af neinu.
„Slík breyting á pólitískri stefnumörkun landsins getur haft neikvæð áhrif á samskipti Rússa og Finna sem hafa þróast í gegnum árin í anda góðra nágrannatengsla og samvinnu milli samstarfsfélaga,“ segir í yfirlýsingu frá Kreml.