Íbúar í bandarísku borginni Buffalo héldu á sunnudag minningarathöfn um fórnarlömb skotárásar við matvöruverslun í borginni í gær. Tíu létust í árásinni og þrír slösuðust, en árásarmaðurinn er hvítur hægri-öfgasinni.
Lögreglustjóri Buffalo, Joesph Gramaglia, sagði á blaðamannafundi að árásarmaðurinn, sem er 18 ára og hefur verið nafngreindur sem Payton S. Gendron, hafi fyrirfram kannað staði þar sem svartir íbúar eru í meirihluta áður en hann keyrði frá heimabæ sínum Conklin sem er 322 kílómetra frá Buffalo.
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að Gendron hafi skrifað ítarlega „stefnulýsingu“ og birt á netinu skömmu fyrir árásina. Í meintum texta segir árásarmaðurinn frá áætlun sinni sem var knúin af kynþáttarfordómum.
Gendron sagðist meðal annars vera „innblásinn“ af ofbeldisverkum hvítra hægri-öfgasinna, m.a. hryðjuverkunum í Christchurch á Nýja-Sjálandi árið 2019, þar sem 51 múslimi lést.
Gendron beitti hálf-sjálfvirku skotvopni við árásina sem hann hafði skrifað á slagorð hvítra hægri-öfgasinna.
Gendron klæddist hvoru tveggja skotheldri brynju og hjálmi þegar hann framdi árásina. Langflest fórnalamba hans voru svört á hörund.
Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmdi árásina í Washington í dag og sagði að „við þurfum öll að vinna saman til að takast á við hatrið sem er blettur á sál Bandaríkjanna“.
Íbúar komu saman fyrir utan matvöruverslunina á sunnudagsmorgun og ríkisstjóri New York Kathy Hochul ávarpaði minningarathöfn í kirkju borgarinnar.
Gendron undirgekkst í dag geðmat, en hann hefur verið ákærður fyrir morð af yfirlögðu ráði án möguleika á tryggingu.