Árásarmaðurinn sem skaut tíu manns til bana í matvöruverslun í borginni Buffalo í Bandaríkjunum á laugardag leitaði vísvitandi að stað þar sem meirihluti íbúar eru svartir.
Auk þeirra tíu sem létust særðust þrír en árásarmaðurinn er hvítur hægri öfgasinni.
Maðurinn, Payton S. Gendron, hafði áður tjáð hatur sitt á svörtum og gyðingum í netheimum.
Gendron keyrði frá heimabæ sínum Conklin sem er 322 kílómetra frá Buffalo. Hann beitti hálf-sjálfvirku skotvopni við árásina sem hann hafði skrifað á slagorð hvítra hægri-öfgasinna.
„Þessi einstaklingur kom hingað í þeim eina tilgangi að taka eins mörg svört líf og hann gat,“ sagði Byron Brown, borgarstjóri Buffalo.
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að Gendron hafi skrifað ítarlega „stefnulýsingu“ og birt á netinu skömmu fyrir árásina. Í meintum texta segir árásarmaðurinn frá áætlun sinni sem var knúin af kynþáttarfordómum.
Gendron sagðist meðal annars vera „innblásinn“ af ofbeldisverkum hvítra hægri-öfgasinna, m.a. hryðjuverkunum í Christchurch á Nýja-Sjálandi árið 2019, þar sem 51 múslimi lést.
Ríkisstjóri New York Kathy Hochul fordæmdi árásina og einnig samfélagsmiðla sem leyfðu hatri og reiði að grassera án þess að nokkuð væri gert.