Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að hann hafi rætt við Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, um umsóknir Finnlands og Svíþjóðar um aðild að bandalaginu, en Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, lýsti því yfir fyrr í kvöld að hann myndi ekki segja já að óbreyttu við umsókn ríkjanna tveggja.
„Tyrkland er dýrmætur bandamaður og það verður að bregðast við öllum öryggisáhyggjum. Við verðum að standa saman á þessari sögulegu stundu,“ skrifaði Stoltenberg á Twitter.
Samkvæmt heimildum Expressen.se hafa Tyrkir sett fram þær kröfur að Finnar og Svíar aflétti vopnasölubanni, sem ríkin settu á Tyrkland sem hluti af Evrópusambandsríkjunum eftir innrás Tyrklands í Sýrland árið 2019, sem beindist gegn Kúrdum. Þá vilji Tyrkir að Svíar framselji til Tyrklands 21 liðsmann PKK- og Gülen-samtakanna, sem hafi beitt sér gegn tyrkneskum stjórnvöldum.
Flest önnur aðildarríki bandalagsins utan Tyrklands hafa tekið vel í væntanlegar umsóknir Finnlands og Svíþjóðar.
„Þýskaland hefur undirbúið allt svo að viðræður gangi hratt fyrir sig,“ sagði Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, og bætti við að gæta þyrfti öryggis Finna og Svía á þeim tíma sem liði frá umsókn þeirra í NATO og þar til þau fái inngöngu.
Þá sagði Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, að Bretar fögnuðu yfirlýsingum Finna og Svía og að þau ættu að vera tekin inn í bandalagið eins fljótt og mögulegt væri.
„Bretland lýsir yfir miklum stuðningi við umsóknir Finnlands og Svíþjóðar um aðild að NATO,“ sagði í yfirlýsingu Truss, sem bætti við að innganga ríkjanna myndi auka mjög á öryggi Evrópu.