Heimsmarkaðsverð á hveiti er í methæðum eftir að Indverjar tilkynntu bann á útflutningi á hveiti til að sporna við lítilli framleiðslu í ár.
Ákvörðunin var tekin til að tryggja fæðuöryggi í landinu en ásamt lítilli framleiðslu þá spilar mikil hækkun á heimsmarkaðsverði hveitis inn í.
Í lok markaða Euronext í dag var verð á tonni af hveiti 438,25 evrur eða rétt rúmlega sextíu þúsund krónur. Áður var metið 422,40 evrur fyrir tonnið eða 58,528 krónur.
Hækkunin á hveiti síðustu mánuði hefur haft áhrif á verðbólgu á heimsvísu og gæti haft sérstaklega slæmar afleiðinga í fátækari löndum heimsins.
Indland er það land sem framleiðir næst mest af hveiti í heiminum en þar var marsmánuður sá heitasti frá upphafi mælinga.
Þetta hefur áhrif á hveitiframleiðslu í norðurhluta landsins þar sem áætlað er að framleiðsla minnki um fimm prósent, sem var 109 milljón tonn á síðasta ári.
Tímasetningin gæti ekki verið mikið verri þar sem stríðið í Úkraínu hefur minnkað hveitiframleiðslu þar um þriðjung og heimsmarkaðsverð hefur hækkað um 40 prósent síðan Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar. Um tólf prósent útflutnings á hveiti var frá Úkraínu áður fyrr.
Í síðustu viku tilkynntu ráðamenn í Indlandi að þau myndu senda sendinefndir til Egyptalands, Tyrklands og víðar til að ræða aukinn útflutning af hveiti frá Indlandi. Ekki er víst hvort verði af heimsóknunum.