Sauli Niinistö, forseti Finnlands, segist vera bjartsýnn á að hægt verði að tryggja stuðning Tyrklands við inngöngu Finna og Svía í Atlantshafsbandalagið, þrátt fyrir að forseti Tyrklands, hafi lýst því yfir að hann muni ekki styðja umsóknir ríkjanna. AFP-fréttstofan greinir frá.
„Ég er sannfærður um að með uppbyggilegu samtali verði hægt að leysa þessa stöðu,“ sagði Niinistö þegar hann ávaraði sænska þingið í dag. „Ég er bjartsýnn,“ bætti hann svo við.
Sænska utanríkisráðuneytið greindi frá því í gær að háttsettir erindrekar frá Svíþjóð og Finnlandi myndu ferðast til Tyrklands á næstunni til að ræða málið við þarlenda embættismenn, en löndin hyggjast sækja sameiginlega um aðild.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði hins vegar á blaðamannafundi í Ankara í gær vegna opinberrar heimsóknar Abdelmadjid Tebboune, forseta Alsírs, að diplómatar ríkjanna ættu ekki „að ómaka sig“ við að koma til Tyrklands til þess að reyna að fá Tyrki til að skipta um skoðun.
„Hvorugt þessara ríkja hefur tekið skýra afstöðu gegn hryðjuverkasamtökum,“ sagði Erdogan sem vill meina að ríkin hafi stutt við „hryðjuverkastarfsemi“ með því að leyfa Kúrdum að sinna stjórnmálastarfi í löndum sínum.
Öll aðildarríki NATO þurfa að samþykkja inngöngu nýrra ríki í bandalagið, en bæði Svíar og Finnar töldu sig hafa fengið jákvæð viðbrögð allra aðildarríkja við hugsanlegri umsókn. Niinisto sagði að hann hefði átt samtal við Erdogan fyrir um mánuði síðan og þá hefði hann tekið vel í hugmynd um aðildarumsókn Finna.