Tilkynningum um fljúgandi furðuhluti hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum 20 árum.
Þetta sagði háttsettur embættismaður í bandarískum varnarmálum við þingmenn, á fyrsta opinbera nefndarfundinum um fljúgandi furðuhluti í hálfa öld.
„Frá því snemma á þessari öld, höfum við orðið vör við aukinn fjölda bannaðra og/eða óskilgreindra loftfara eða -hluta á æfingasvæðum hersins og á öðrum skilgreindum loftferðasvæðum,“ sagði Scott Bray, aðstoðarforstjóri njósnadeildar bandaríska sjóhersins, við öryggisnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Bray sagði ástæðuna fyrir þessu vera þá að núna séu fleiri tilbúnir en áður til að greina frá slíku, auk þess sem tækninni hafi fleygt fram.
Samt sem áður sagði hann að bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, hefði ekki fundið neitt í tengslum við þessi fyrirbæri „sem benti til að þau ættu uppruna sinn í geimnum“.
Brey vildi aftur á móti ekki heldur útiloka þann möguleika alfarið.
„Við höfum ekki gert okkur neina grein fyrir því hvað þetta er eða er ekki,“ sagði hann.
Í júní árið 2021 gáfu bandarískar leyniþjónustur út skýrslu, sem lengi hafði verið beðið eftir. Þar kom fram að engar sannanir væru fyrir tilvist geimvera á sveimi í loftinu. Þar sagði þó einnig að engar skýringar hefðu fengist á tugum fyrirbæra sem flugmenn hersins hefðu séð.
Mögulega tengdust einhver þeirra drónum eða fuglum. Herbúnaður eða tækni af völdum annarra ríkja á borð við Kína eða Rússland gætu einnig skýrt hluta þeirra.