Játaði sig sekan um stríðsglæpi í Úkraínu

Vadim Shishimarin leiddur inn í réttarsal í dag.
Vadim Shishimarin leiddur inn í réttarsal í dag. AFP

21 árs gamall rússneskur hermaður játaði sig á miðvikudag sekan um morð af yfirlögðu ráði á úkraínskum borgara í fyrsta réttarhaldi úkraínskra yfirvalda vegna stríðsglæpa af hálfu rússneska hersins í Úkraínu. 

Viðbúið er að Vadím Shishimarín, liðþjálfi frá Irkutsk í Síberíu, sé fyrstur af fjölda rússneskra hermanna sem verða sóttir til saka af Úkraínu. Hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. 

„Með þessum fyrstu réttarhöldum erum við að senda skýr skilaboð að sérhver brotamaður, sérhver manneskja sem fyrirskipaði eða aðstoðaði við framkvæmd glæpa í Úkraínu geti ekki komist undan ábyrgð,“ sagði aðalsaksóknari Úkraínu, Írína Venediktóva við réttarhöldin. 

AFP

Að sögn rússneskra yfirvalda búa þau ekki yfir neinum upplýsingum um Shishimarín.

Shishimarín játaði sig sekan um stríðsglæpi með því að hafa skotið til bana 62 ára óvopnaðan karlmann á hjóli á Súmí-svæðinu, fjórum dögum eftir innrásina í febrúar. 

Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn (ICC) hefur sent stærsta vettvangsteymi í sögu dómstólsins til Úkraínu. Í teyminu eru 43 rannsakendur, réttarmeinafræðingar og aðstoðarfólk sem munu safna sönnunargögnum um meinta stríðsglæpi. 

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur einnig greint frá því að sérstök nefnd verði mynduð innan ráðuneytisins sem muni rannsaka, skrá og gera opinbera stríðsglæpi rússneska hersins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert