Sögulegt skref Finna og Svía

Jens Stoltenberg stillti sér upp á athöfn vegna umsóknanna í …
Jens Stoltenberg stillti sér upp á athöfn vegna umsóknanna í morgun. AFP

Finnland og Svíþjóð skiluðu í dag inn umsóknum sínum um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þjóðirnar tvær fóru að skoða möguleikann á aðild eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúarmánuði. Þar geisar enn stríð. 

„Umsóknirnar sem þið skiluðuð inn í dag eru sögulegar. Þjóðir bandalagsins munu nú skoða næstu skref í átt að aðild ykkar að Atlantshafsbandalaginu,“ sagði Jens Stolteberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, í kjölfar þess að sendiherrar þjóðanna skiluðu umsóknunum inn. 

Ef af aðild ríkjanna verður mun hún verða til einnar mestu útvíkkunar Atlantshafsbandalagsins í áratugi og tvöföldun landamæra bandalagsins við Rússland. Vladimír Pútín, forseti landsins, hefur hótað því að hann gæti brugðist með einhverjum hætti við inngöngu þjóðanna í Atlantshafsbandalagið. 

Tyrkir andstæðir inngöngu Finna og Svía

Umsóknirnar standa ekki einungis frammi fyrir andstöðu Rússa heldur einnig Tyrkja sem eiga aðild að bandalaginu. Þeir hafa hótað því að koma í veg fyrir inngöngu Norðurlandaþjóðanna tveggja vegna þess að Tyrkir telja að þær veiti vopnuðum hópum sem eru andstæðir tyrkneskum stjórnvöldum skjól. 

„Öryggishagsmunir allra aðildarríkja verða teknir með í reikninginn og við erum staðráðin í að vinna okkur í gegnum öll vandamál og ná skjótri niðurstöðu,“ sagði Stoltenberg. 

„Allar bandalagsþjóðir eru sammála um útvíkkun Atlantshafsbandalagsins. Við erum öll sammála um að við þurfum að standa saman og við erum öll sammála um að þetta sé söguleg stund sem við þurfum að grípa á lofti.“

Finnar og Svíar eru bjartsýnir á að þeir muni geta yfirstigið mótmæli Tyrkja. 

Útlit er fyrir að umsóknirnar verði ræddar strax í dag og mögulega gefur bandalagið samdægurs grænt ljós á formlegar viðræður við þjóðirnar um umsóknir þeirra. 

Ísland á aðild að Atlantshafsbandalaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert