Heilbrigðisyfirvöld í Norður-Ameríku og Evrópu eru með til skoðunar tugi tilfella af sjaldgæfum sjúkdómi sem kallast apabóla. Tilfellin hafa verið að koma upp síðustu vikurnar en áður hafði hann aðeins verið þekktur í Afríku. AFP-fréttastofan greinir frá.
Síðast var tilkynnt að sjúkdómurinn hefði skotið upp kollinum í Kanada og eru heilbrigðisyfirvöld þar í landi með á annan tug tilfella til skoðunar. Á Spáni og Portúgal hafa um 40 tilfelli komið upp þar sem grunur er um apabólu og í einhverjum tilfellum hefur sjúkdómurinn verið staðfestur. Í Bretlandi hafa níu tilfelli verið staðfest og gær var tilkynnt um fyrsta tilfellið í Bandaríkjunum, en sá smitaði var að koma frá Kanada.
Fyrstu einkenni apabólu líkjast venjulegum flensueinkennum. Smitaðir fá hita, bein- og vöðvaverki og eitlar bólgna. Í framhaldinu myndast svo útbrot sem svipar til hlaupabólueinkenna á andliti og líkama.
Ekki er talið að almenningi stafi mikil ógn af apabólu en flestir jafna sig á nokkrum vikum. Aðeins er vitað um eitt tilfelli þar sem apabóla hefur dregið sjúkling til dauða. Apabóla er þekkt í Mið- og Vestur-Afríku og á síðustu árum hafa þúsundir tilfella komið þar upp.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) vinnur nú að því í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld í Evrópusambandinu og Bretlandi að því að kortleggja tilfellin og fara yfir stöðuna.
„Við þurfum að öðlast betri skilning á umfangi útbreiðslu apabólu í þeim löndum sem hún hefur komið upp til að meta hættuna sem af henni stafar. Við þurfum líka að skoða hættuna á frekari útbreiðslu til annarra landa,“ sagði Maria Von Kerkhove, sérfræðingur í smitsjúkdómum og faraldsfræði hjá WHO, á blaðamannafundi á þriðjudag.
Fyrsta tilfellið sem kom upp í Bretlandi var hjá einstaklingi sem hafði verið í Nígeríu en talið er að hin tilfellin hafi smitast manna á meðal, að fram kemur í yfirlýsingu frá breska landlæknisembættinu.
„Þau tilfelli, ásamt upplýsingum um tilfelli í fleiri Evrópulöndum, staðfesta áhyggjur okkar af því að apabóla gæti breiðst út í samfélaginu,“ sagði jafnframt í yfirlýsingunni.
Einnig er til skoðunar hvort smit geti borist á milli manna með kynlífi, en margir einstaklinganna sem hafa smitast eru samkynhneigðir og tvíkynhneigðir karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum.