Rannsókn á „Partygate“ lokið með 126 sektum

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var sektaður vegna veisluhalda í Downingstræti …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var sektaður vegna veisluhalda í Downingstræti 10. AFP

Lundúnalögreglan hefur lokið rannsókn sinni á brotum á sóttvarnareglum meðal annars við veisluhöld í Downingstræti 10, með því að gefa út enn fleiri sektir.

Alls hafa 126 einstaklingar verið sektaðir fyrir brot á sóttvarnareglum vegna ýmissa viðburða í kórónuveirufaraldrinum, en rannsókn lögreglu hófst í janúar á þessu ári. BBC greinir frá.

28 einstaklingar hafa fengið tvær til fimm sektir en aðrir eina sekt. Greint hefur verið frá því að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi fengið eina sekt vegna veisluhalda í Downingstræti 10, en samkvæmt heimildum BBC fékk hann fleiri sektir.

Hægt að birta skýrslu Gray í fullri lengd

Lok rannsóknar lögreglunnar markar ákveðin tímamót, því nú er hægt að birta að fullu skýrslu Sue Gray, sérstaks saksóknara, sem rannsakaði veisluhöld í Downingstræti 10 meðan á útgöngubanni stóð í faraldrinum.

Lögreglan fór þess á leit við Gray að hún takmarkaði þær upplýsingar sem gerðar yrðu opinberar úr skýrslu hennar á meðan lögreglan kláraði sína sjálfstæðu rannsókn. Var það gert til að koma í veg fyrir hlutdrægni.

Gray rannsakaði 12 veislur og gögnin sem lágu fyrir í málinu töldu yfir 500 blaðsíður og 300 ljósmyndir. Johnson var viðstaddur að minnsta kosti þrjár af þessum veislum, að fram kemur í skýrslunni. Hann féllst á að skýrslan yrði birt í fullri lengd að lokinni lögreglurannsókn á málinu.

Samkvæmt frétt BBC er gert ráð fyrir að skýrsla Gray verði gerð opinber á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert