Stefán Gunnar Sveinsson
Gerhard Schröder, fyrrverandi Þýskalandskanslari, var í dag sviptur þeim fríðindum sem fyrrverandi kanslarar fá, þar á meðal skrifstofu sinni og starfsfólki, en Schröder er sagður hafa brugðist þeim skyldum sem fylgi embættinu með því að segja sig ekki frá stjórnarsetu sinni í tveimur rússneskum orkufyrirtækjum.
Schröder var kanslari frá 1998 til 2005, og hafði fengið að halda úti skrifstofu með starfsfólki, sem kostaði þýska skattgreiðendur um 419.000 evrur á síðasta ári, eða sem nemur tæpum 58.5 milljónum króna.
Í samþykkt þýska þingsins var ekki minnst á tengsl Schröders við rússnesk stjórnvöld eða afstöðu hans til Úkraínustríðsins, heldur sagði að Schröder uppfyllti ekki lengur neinar af þeim skyldum sem fylgdu stöðu hans sem fyrrverandi stjórnskörungs, og því væri ekki lengur þörf á að veita honum skrifstofu eða starfsfólk.
Allir ríkisstjórnarflokkarnir þrír stóðu að tillögunni, þar á meðal flokkur Schröders, Sósíaldemókrataflokkurinn SPD. Þá greiddu kristilegu flokkarnir einnig atkvæði með tillögunni, jafnvel þó að þeir hefðu einnig kallað eftir því að Schröder yrði sviptur eftirlaunum sínum, sem nema um 100.000 evrum á ári, eða rétt tæpum 14 milljónum íslenskra króna. Mun Schröder því halda lífeyrisgreiðslum sínum, sem og öryggisvörðum.