Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hét í dag Svíum og Finnum fullum stuðningi við umsókn þeirra um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). AFP-fréttastofan greinir frá.
Biden sagði ríkin uppfylla öll skilyrði um inngöngu í bandalagið. Forsetinn ávarpaði fréttamenn með Magdalenu Anderssen, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Sauli Niinistö, forseta Finnlands, sér við hlið, en þau funduðu í Hvíta húsinu í dag vegna umsóknar ríkjanna um aðild að NATO.
„Þau uppfylla öll skilyrði NATO og vel rúmlega það,“ sagði Biden og bætti því að Bandaríkin myndu styðja inngöngu ríkjanna.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að styðja umsóknina en samþykki allra 30 aðildarríkja NATO þarf til þess að ný ríki geti gengið inn í bandalagið.
„Hvorugt þessara ríkja hefur tekið skýra afstöðu gegn hryðjuverkasamtökum,“ sagði Erdogan í vikunni, en hann vill meina að ríkin hafi stutt við „hryðjuverkastarfsemi“ með því að leyfa Kúrdum að sinna stjórnmálastarfi í löndum sínum.
Niinistö tók einnig til máls á blaðamannafundinum fyrir utan Hvíta húsið í dag og sagði að Finnar myndu ræða öll þau mál við Tyrki sem þeir hefðu áhyggjur af, ásamt því að fordæma alla hryðjuverkastarfsemi.
„Við fordæmum alla hryðjuverkastarfsemi og höfum bundið okkar að berjast formlega gegn slíkri starfsemi,“ sagði Niinistö.
„Við erum tilbúin að ræða allar áhyggjur varðandi aðild okkar á opin og uppbyggilegan hátt,“ sagði hann jafnframt.