Ekki er hægt að flýta umsókn Úkraínu um aðild að Evrópusambandinu (ESB) þrátt fyrir innrás Rússa í landið, að sögn Olafs Scholz, kanslara Þýskalands. Hann greindi frá þessu í dag og bætti því við að Evrópusambandið þyrfti að finna „hraða og raunsæja“ leið til þess að koma Úkraínumönnum til aðstoðar.
„Það er ekki mögulegt að stytta sér leið til Evrópusambandsins,“ sagði Scholz og bætti því við að undantekning fyrir Úkraínu væri ósanngjörn gagnvart ríkjum á Vestur-Balkanskaga sem einnig hafa sóst eftir aðild.
Kanslarinn sagði að hann myndi mæta á ráðstefnu Evrópusambandsins í lok mánaðar „með skýr skilaboð um að Vestur-Balkanskagaríkin eiga heima í Evrópusambandinu.“
Þá kallaði Scholz eftir því að aðrar leiðir yrðu farnar til þess að hjálpa Úkraínu til skamms tíma og sagði að það væri forgangsmál að „styðja Úkraínu hratt og með raunsæjum hætti“.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur einnig sagt að það muni taka „áratugi“ fyrir land eins og Úkraínu til að fá aðild að Evrópusambandinu. Hann hefur sömuleiðis lagt til að stofnað verði víðtækara evrópskt stjórnmálasamfélag sem gæti þá náð til ríkja eins og Úkraínu eða Bretlands eftir útgöngu þjóðarinnar úr Evrópusambandinu.