Sirajuddin Haqqani, sitjandi innanríkisráðherra Afganistans og einn af leiðtogum Talíbana, ítrekaði óuppfyllt loforð samtakanna um að konum verði hleypt aftur í framhaldsskóla í einkaviðtali við CNN. Sagði Haqqani að „góðra frétta“ væri að vænta en aftur á móti ættu konur sem mótmæltu takmörkunum stjórnvalda í Afganistan að halda sig heima.
Eftir að talíbanar höfðu lofað því ítrekað að stúlkur myndu fá að mæta í framhaldsskóla frestuðu þeir þeirri breytingu ótímabundið í marsmánuði.
Þegar fréttakona CNN spurði Haqqani um þá stöðu að afganskar konur væru hræddar við að yfirgefa heimili sín undir stjórn talíbana og væru smeykar við þær breytingar sem talíbanar boðuðu á réttindum kvenna sagði Haqqani hlæjandi:
„Við höldum óþekkum konum heima.“
Fréttakona CNN bað Haqqani um að skýra þessi ummæli betur sagði hann:
„Með því að segja óþekkar konur var ég að grínast og vísa til þeirra óþekku kvenna sem er skipað af öðrum að draga núverandi stjórnvöld í efa.“
Þá setti Haqqani einnig fram nokkur mörk á líf kvenna sem hann sagði að væru í samræmi við túlkun talíbana á íslömskum lögum og „þjóðlegum, menningarlegum og hefðbundnum meginreglum.“
„Þeim er leyfilegt að vinna innan sinna eigin ramma,“ sagði Haqqani.
Var viðtal CNN við hann fyrsta sjónvarpsviðtalið sem hann hafði farið í við vestrænan fjölmiðil í áraraðir. Einungis fyrir nokkrum mánuðum síðan sýndi hann andlit sitt í fyrsta sinn opinberlega. Haqqani er eftirlýstur af bandarísku alríkislögreglunni (FBI).
Talíbanar rændu völdum í Afganistan í ágústmánuði í fyrra.