NATO og þumalskrúfa Erdogans

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Sendi­herr­ar Svíþjóðar og Finn­lands af­hentu á miðviku­dag Jens Stolten­berg fram­kvæmda­stjóra Atlants­hafs­banda­lags­ins (NATO) aðild­ar­um­sókn sína að banda­lag­inu, sem var vel tekið, enda upp­fylla þau öll aðild­ar­skil­yrði þess og rík­ur vilji til þess að hraða um­sókn­ar­ferl­inu. Einn sagði þó þvert nei, en það var Tayyip Er­dog­an Tyrk­lands­for­seti. Og þar við sit­ur nema hann verði sann­færður um annað.

Ekki þarf að eyða mörg­um orðum í það hversu full­kom­lega mis­heppnuð árás Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta á Úkraínu hef­ur reynst. Sá yf­ir­gang­ur átti að lækka rost­ann í Úkraínu og vera öðrum grann­ríkj­um til viðvör­un­ar, skáka Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO) og treysta stöðu Rúss­lands á alþjóðavett­vangi.

Raun­in hef­ur verið mjög á aðra leið. Úkraína hef­ur reynst eiga í fullu tré við inn­rás­ar­her­inn, sem bend­ir til þess að rúss­neski her­inn hafi verið stór­kost­lega of­met­inn um margra ára skeið. Dómgreind­ar­leysi Kreml­ar­bænda í bland við skefja­leysi og villi­mennsku í garð al­mennra borg­ara, að ógleymdu gá­leys­is­legu tali um beit­ingu kjarn­orku­vopna, hef­ur ekki aðeins ein­angrað Rúss­land gagn­vart Vest­ur­lönd­um, held­ur sam­einað þau og blásið nýju lífi í NATO.

Áþreif­an­leg­asta af­leiðing­in utan Úkraínu er þó sú að bæði Finn­ar og Sví­ar hafa skipt um skoðun.

Neit­un­ar­valdið í NATO

Atlants­hafs­banda­lagið er mögu­lega best heppnuðu alþjóðasam­tök sög­unn­ar og fagnaði ný­verið 73 ára af­mæli sínu.

Vel­gengni NATO hef­ur að miklu leyti mátt rekja til þess að það held­ur sig við þrönga en ákaf­lega veiga­mikla varn­ar­hags­muni, sem krist­all­ast í því að árás á hvert og eitt ríki þess skoðast sem árás á þau öll og banda­lags­rík­in hafa skuld­bundið sig til sam­eig­in­legra varna og sam­stöðu í ófriði. Ein­mitt vegna þess hve hags­mun­irn­ir eru rík­ir eru all­ar ákv­arðanir tekn­ar í sam­ein­ingu: Þar hef­ur hvert og eitt ríki neit­un­ar­vald og því beit­ir Er­dog­an nú til þess að aftra sögu­legri aðild nor­rænu ríkj­anna tveggja, ein­mitt þegar ófriðar­ský­in hrann­ast upp yfir Moskvu.

Þvermóðska Er­dog­ans

Er­dog­an fer ekki dult með ástæður þess að hann seg­ir nei. Hann seg­ist hafa áhyggj­ur af því að Sví­ar og Finn­ar séu ein­fald­lega ekki á „sömu síðu“ í ör­ygg­is­mál­um og styðji hryðju­verka­menn.

Þar vís­ar Er­dog­an fyrst og fremst í af­stöðu þeirra til sjálf­stæðis­hreyf­inga Kúrda, en vænn hluti Kúr­d­ist­ans ligg­ur inn­an landa­mæra Tyrk­lands. Þar er hin vopnaða komm­ún­ista­hreyf­ing PKK Tyrkj­um sér­stak­ur þyrn­ir í aug­um. Ekki þeim ein­um þó, því bæði Evr­ópu­sam­bandið og Banda­rík­in skil­greina PKK sem hryðju­verka­sam­tök. Finn­ar og Sví­ar hafa hins veg­ar veitt mörg­um fé­lög­um í PKK hæli og hafa hafnað framsals­kröf­um Tyrkja á 30 fé­lög­um í PKK.

Þá hafa þar fengið hæli ýms­ir fylgj­end­ur klerks­ins Fet­hullahs Gulens, sem Er­dog­an seg­ir hafa staðið á bak við vald­aránstilraun­ina 2016, sem gerði Tyrk­lands­for­seta kleift að herða tök sín á land­stjórn­inni til muna og losa sig við fjöl­marga and­stæðinga og gagn­rýn­end­ur.

Það er þó ekki allt, því Finn­ar og Sví­ar for­dæmdu einnig her­leiðang­ur Tyrkja árið 2019 inn í hið stríðshrjáða Sýr­land og hafa beitt Tyrk­land refsiaðger­um síðan. Ekki er að efa að fjöl­mörg NATO-ríki voru sam­mála, en þögðu til þess að styggja banda­mann­inn ekki.

Er­dog­an vill að Sví­ar og Finn­ar láti af öll­um refsiaðgerðum gegn Tyrklandi og hætti að veita fé­lög­um í PKK hæli, en Tyrk­ir telja lönd­in „gróðrarstíu“ hryðju­verka­manna sam­tak­anna. Norður­landaþjóðirn­ar tvær kunna að geta komið eitt­hvað til móts við þá, en framsalskraf­an er þeim erfið, enda réttar­far í Tyrklandi ekki rómað.

Nán­ar er fjallað um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert