Norsk yfirvöld hafa greint frá því að einstaklingur sem sýktur er af apabólu hafi komið til landsins. Um er að ræða fyrsta tilfelli sjúkdómsins í Noregi.
NRK greinir frá því að um sé að ræða Evrópubúa sem kom til Óslóar 6. maí og dvaldi í borginni í fjóra daga.
Einstaklingurinn var með einkenni apabólu á meðan dvölinni stóð en fékk smitið ekki staðfest fyrr en heim var komið.
Borgaryfirvöld í Ósló vinna nú að því að kortleggja ferðir einstaklingsins og koma upplýsingum til þeirra sem gætu átt í hættu á smiti.
Preben Aavitsland, yfirlæknir hjá Norsku lýðheilsustofnuninni, segir það ekki koma á óvart að smit greinist í landinu.
Ekki er talið að almenningi stafi mikil ógn af apabólu en flestir jafna sig á nokkrum vikum.