Margir Rússar yfirgefið landið

Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Rússlandi.
Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Rússlandi. Ómar Óskarsson

Þúsund vestræn fyrirtæki hafa yfirgefið Rússland og fjölmargir Rússar misst vinnuna í kjölfarið, að sögn Árna Þórs Sigurðssonar, sendiherra Íslands í Rússlandi. Hækkandi verðlag hefur þó meiri áhrif á Rússa en vöruskortur. 

„Andrúmsloftið og staðan hér í Moskvu er svipuð og hún hefur verið um nokkurt skeið en við verðum vör við það að vestrænum búðum hefur verið lokað í verslunarmiðstöðvum og ekki mikið að koma á móti en það tekur örugglega tíma.“

Þrátt fyrir viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja á hendur Rússlandi segist Árni ekki verða var við mikinn vöruskort, nema í tilfelli sérstaks vestræns varnings og á lyfjamarkaðnum. 

„Það er orðið erfitt að fá viss innflutt lyf. Ég reikna samt með að þeir reyni að auka við framleiðslu á því sjálfir.“

Vöruverð hefur snarhækkað í Rússlandi og fjöldi fólks hefur misst …
Vöruverð hefur snarhækkað í Rússlandi og fjöldi fólks hefur misst vinnuna. ALEXANDER NEMENOV

Verðbólgan komin á flug

Verðbólga í Rússlandi hefur farið á flug eftir innrásina í Úkraínu. Hún er nú í 17 til 18 prósentum, að sögn Árna. 

Sem afleiðing þess hefur vöruverð hækkað umtalsvert. „Fólk verður mjög vart við það og finnur það í veskinu sínu.“ Það kemur einkum hart niður á þeim sem hafa misst vinnuna eftir brottför vestrænna fyrirtækja. 

Gósentíð hjá ríkissjóðnum

Árni bendir á að samdráttur í innflutningi hafi skilað sér í jákvæðum viðskiptajöfnuði. 

Þá hefur verð á olíu og gasi hækkað, sem sé gott fyrir ríkissjóð Rússlands.

Þó Evrópusambandið og önnur vestræn ríki hafi tekið ákvörðun um að draga úr kaupum á eldsneyti frá Rússlandi, hafa áhrif þess ekki enn komið fram, að sögn Árna. 

„Menn segja ekki upp olíu og gasi á svipstundu, þetta getur tekið langan tíma og Rússar hafa reynt að finna aðra markaði. Það er auðveldara með olíuna en þó erfiðara með gasið sem þarf að fara í gegnum sérstakar leiðslur.“

Þessi tekjuaukning ríkissjóðs gæti þannig verið skammtíma áhrif og viðsnúningur orðið þegar samdráttur í sölu fer að segja til sín, að mati Árna. 

Tappinn settur í mótmæli

Erfitt er að meta afstöðu fólks í Rússlandi til stríðsins í Úkraínu, að sögn Árna. 

Ef fólk er andsnúið Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, talar það ekki um það og fjölmiðlar gefa gagnrýnisröddum lítið svigrúm, enda eru þeir háðir stjórnvöldum. 

Í upphafi stríðsins brutust út stöku mótmæli, en dregið hefur úr þeim til muna. 

„Refsingar hafa verið þyngdar og viðurlög við því að tala um þennan leiðangur Rússa sem stríð, gagnrýni á stjórnvöld er þannig tekin alvarlega. Lögreglan hefur verið að handtaka fólk og leysa upp mótmæli.“

Aftur á móti hefur hátt í hálfa milljón Rússa yfirgefið landið, að sögn Árna. „Þetta er oft vel menntað fólk sem sér fyrir sér að eiga möguleika annarsstaðar.“

Flugherinn forfallaðist á sigurdaginn

Á sigurdaginn, 9.maí, segir Árni að hátíðarhöldin hafi verið minni í sniðum en venjulega. 

„Það voru færri sem tóku þátt á Rauða torginu, færri hermenn í skrúðgöngunni og svo var flugherinn ekki. Því var haldið fram að það hafi ekki verið veðurskilyrði fyrir flugi en það var nú ekkert að veðrinu.“

Þar að auki hafi ræða Pútín ekki verið jafn herská og menn bjuggust við. 

Færri hermenn tóku þátt í sigurdeginum en vanalega.
Færri hermenn tóku þátt í sigurdeginum en vanalega. AFP

Áttu engra kosta völ

Sú lína sem hefur verið gegnum gangandi í rússneskum fjölmiðlum er, að Rússland hafi átt nokkurra kosta völ, að sögn Árna. 

Vesturlönd hafi ekki hlustað á áhyggjur þeirra eða tilraunir til málamiðlunar og þrengst hafi verið að þeim með þeim hætti að „hernaðarleiðangur“ til Úkraínu hafi verið nauðsynlegur. 

„Þetta endurómar aftur og aftur í fjölmiðlum.“

Einbeita sér að öðrum ríkjum

Starfsumhverfi Árna hefur breyst eftir innrás Rússa. 

„Við erum minna í samskiptum við rússnesk stjórnvöld, eðli málsins samkvæmt. Viðskiptaþvinganir gera það að verkum að menn eru ekki að reyna að sinna líkum málum.“

Þá hafi einnig verið tekið fyrir menningar- og íþróttasamskipti. 

„Á móti erum við að fylgjast mikið með stöðunni, gera grein fyrir umræðunni hér, gagnvart stjórnvöldum á Íslandi og svo eru samráðsfundir með sendiráðum Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og aðildarríkja NATO.“

Þá sinnir hann áfram almennri borgaraþjónustu við þá sem búsettir eru í Rússlandi.

Hann bendir á að sendiráðið í Rússlandi sé með níu önnur lönd í sínu umdæmi og nú sé aukin áhersla sett á að skoða tækifæri sem samstarf við þau hefur upp á að bjóða. 

Óvinsæl á veitingastöðum

Sendiherrar vestrænna ríkja, sem rússnesk yfirvöld hafa lýst yfir sem „óvinveitt ríki“ finna stundum fyrir breyttu viðmóti meðal almennings.

„Það verða bara minni samskipti fyrir vikið, einhverjir upplifa óþægilegt viðmót gagnvart vesturlöndum. Maður þarf bara að leiða það hjá sér.“

Hann segist sérstaklega taka eftir því á veitingastöðum, en minna í matvöruverslunum eða í daglegu amstri. 

Árni viðurkennir þó að það sér sérstakt að vera búsettur í ríki sem sé í stríði, þó stríðið sé utan landamæra Rússlands. 

Þá bendir hann á að margir Rússar eigi fjölskyldu í Úkraínu og því sé stríðið sérstaklega erfitt fyrir þær fjölskyldur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert