Vísindamenn í Bretlandi hafa varað við því að fleiri tilfelli af apabólu muni greinast þar í landi en fleiri en 80 tilfelli hafa greinst í Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu, þar af 20 í Bretlandi.
Apabóla hefur aldrei áður greinst svo víða en hefur hingað til verið bundin við Mið- og Vestur-Afríku að sögn The Guardian. Á síðustu árum hafa þúsundir tilfella komið þar upp.
Sjúkdómurinn dreifist ekki auðveldlega á milli manna svo fjöldi tilfella í svo mörgum ríkjum veldur áhyggjum.
Apabóla smitast við náið samneyti á milli manna. Fyrstu einkenni líkjast venjulegum flensueinkennum. Smitaðir fá hita, bein- og vöðvaverki og eitlar bólgna. Í framhaldinu myndast svo útbrot sem svipar til hlaupabólueinkenna á andliti og líkama.
„Ég er viss um að við munum sjá fleiri tilfelli,“ sagði Charlotte Hammer, sérfræðingur við Cambridge-háskóla í nýjum sjúkdómum, við The Guardian.
Að hennar sögn er meðgöngutími sjúkdómsins eina til þrjár vikur og því líklegt að fleiri tilfelli muni greinast hjá þeim sem höfðu samneyti við sýktan einstakling.
Hammer telur líklegast að apabóla berist nú á milli heimsálfa með þessum hætti vegna kjöraðstæðna fyrir veiruna.
Ekki er talið að almenningi stafi mikil ógn af apabólu en flestir jafna sig á nokkrum vikum. Aðeins er vitað um eitt tilfelli þar sem apabóla hefur dregið sjúkling til dauða.