Óvænt heimsókn eftir tveggja ára útlegð

Nokkrir tugir manna voru saman komnir fyrir utan konungshöllina þegar …
Nokkrir tugir manna voru saman komnir fyrir utan konungshöllina þegar Jóhann Karl kom þangað í morgun. Veifaði hann viðstöddum. AFP

Jóhann Karl, fyrrverandi Spánarkonungur, hefur snúið aftur til heimalands síns eftir að hafa verið í útlegð þaðan í tæp tvö ár.

Gamli konungurinn kom til Spánar á fimmtudag, í fyrstu heimsókn sinni frá því hann flutti til Sameinuðu arabísku furstadæmanna í ágúst árið 2020. Tilefnið er kappsiglingar undan ströndum Galisíu í norðvesturhluta landsins, þar sem snekkjan hans tekur þátt í keppninni.

Flaug hann svo til höfuðborgarinnar Madrídar í morgun og á þar nú fundi í konungshöllinni með konu sinni, Soffíu drottningu, og syni sínum, Filippusi 6. Spánarkonungi.

Þau hafði hann ekki séð frá því hann flúði land árið 2020.

Gert er ráð fyrir að hann yfirgefi Spán að nýju síðar í dag, að loknum endurfundunum.

Konungurinn fyrrverandi flýgur aftur á brott síðar í dag.
Konungurinn fyrrverandi flýgur aftur á brott síðar í dag. AFP

Stýrði Spáni til lýðræðis

Í áratugi var konungurinn dáður fyrir sinn þátt í því að stýra Spáni í átt að lýðræði, í kjölfar þess að einræðisherrann Francisco Franco féll frá árið 1975.

Fjöldi hneykslismála í tengslum við fjárhag Jóhanns Karls og fjármálafléttur konungsfjölskyldunnar leiddu þó til afsagnar hans árið 2014, eftir nærri 40 ár í hásætinu. 

Loks flúði hann land árið 2020, eins og áður sagði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert