Bandaríkin tilbúin að verja Taívan

Biden segir Bandaríkin tilbúin að senda herafla tili Taívan, komi …
Biden segir Bandaríkin tilbúin að senda herafla tili Taívan, komi til innrásar Kínverja. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið því að Bandaríkin muni taka til varna fyrir Taívan, reyni kínversk stjórnvöld að ná yfirráðum yfir eyríkinu. Kínversk stjórnvöld segja að með þessu séu bandarísk stjórnvöld að „leika sér að eldinum“. 

Lét Biden ummælin falla á blaðamannafundi í Tókýó og líkti þar ógn Kína gagnvart Taívan við innrásina í Úkraínu. Hefur hann aldrei tekið jafn skýra afstöðu í málinu og nú þegar spennan eykst milli Bandaríkjanna og Kína vegna aukinna hernaðarumsvifa og efnahagslegrar stöðu síðarnefnda landsins.

Bandaríkin viðurkenni að Peking sé höfuðborg Kína

Nefndi Biden á fundinum að Bandaríkin tækju þessa afstöðu þar sem þau hefðu viðurkennt Kína sem fullvalda ríki með stjórnstöðvar í höfuðborginni Peking. Taívönsk stjórnvöld líta svo á að Taívan sé fullvalda ríki.

„Það er bara ekki viðeigandi að taka yfir Taívan með valdi. Það myndi setja svæðið í uppnám og væri svipuð aðgerð og innrásin í Úkraínu,“ sagði Biden.

Kínverjar hafa aukið vígbúnað sinn nærri Taívan og rofið lofthelgi landsins með lágflugi orrustuþotna en stjórnvöld í Taívan líta á þetta sem ögrun. Kínversk stjórnvöld líta á landið sem hérað innan Kína og núverandi stjórnvöld sem aðskilnaðarsinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka