„Þingið verður að grípa til aðgerða. Ríkisstjórar og þingmenn verða að koma á skynsamlegum lögum um byssueign strax.“
Þetta sagði Sylvester Turner, borgarstjóri Houston-borgar í Texas, í ávarpi sínu vegna skotárásarinnar sem átti sér stað í Robb-grunnskólanum í Uvalde í Texas í kvöld.
Þar sagðist hann vera bæði miður sín og uggandi yfir árásinni og vottaði fjölskyldum fórnarlambanna samúð sína.
Þá biðlaði hann til kjósenda að krefjast þess af kjörnum fulltrúum að koma á almennilegum lögum til að takmarka byssueign í Bandaríkjunum.
„Hversu mörg börn þurfa að deyja vegna glórulauss byssuofbeldis?“
Í bandaríska þinginu hélt þingmaðurinn Chris Murphy frá Connecticut ræðu í svipuðum tóni:
„Börnin okkar búa við stöðuga hræðslu við að stíga fæti inn í kennslustofu því þau gætu verið næst,“ sagði hann og bætti við:
„Þetta gerist aðeins í þessu landi og hvergi annars staðar. Hvergi annars staðar fara börn í skólann og hugsa að þau gætu verið skotin.“
15 fórnarlömb eru þegar látin í árásinni og árásarmaðurinn einnig. Fjöldi barna og starfsmanna skólans liggja nú á sjúkrahúsi. Þar á meðal er 10 ára stúlka og 66 ára kona.