Kynna háhraðalest milli Parísar og Berlínar

Háhraðalest á leið inn að lestarstöðinni í Lyon, fyrr í …
Háhraðalest á leið inn að lestarstöðinni í Lyon, fyrr í mánuðinum. AFP

Ríkisjárnbrautir Frakklands, SNCF, tilkynntu í dag að vonir stæðu til að opnuð verði ný háhraðalestarþjónusta á milli frönsku og þýsku höfuðborganna, Parísar og Berlínar.

Unnið er að þessu beggja vegna landamæranna, ásamt Deutsche Bahn, og gert ráð fyrir að ein ferð á dag verði í boði frá og með desember á næsta ári.

Lestarfélögin segjast vera að bregðast við auknum vilja farþega til að leggja á sig lengri lestarferðalög.

Lestarferðir vinsælli en áður

Jean-Pierre Farandou, forstjóri SNCF, sagði á blaðamannafundi í morgun að fyrir nokkrum árum hefðu félögin talið að fólki hugnaðist ekki lestarferð í allt að sjö klukkustundir. Það væri nú að breytast, að hans sögn.

„Í sameiningu með þýskum kollegum okkar ætlum við að taka þessa áhættu og fara af stað með þessa lest,“ sagði hann.

Félögin bjóða þegar háhraðalestir á milli Parísar og Frankfurtar, en skipta þarf um lest til að komast áleiðis til Berlínar.

Vinsældir lestarferðalaga í Evrópu hafa aukist á undanförnum árum, sem meðal annars hefur verið svarað með auknu framboði næturlesta.

Reiknað er með að næturlestir á milli Parísar og Berlínar byrji einnig að ganga á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert