Segir Úkraínu eiga að afsala sér landsvæði

Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Henry A. Kissinger, segir Úkraínu eiga að afsala sér landsvæði til Rússlands til að hjálpa til við að binda enda á innrás Rússa í landið. Kemur fram í frétt Washington Post að það sé afstaða sem mikill meirihluta Úkraínumanna sé á móti.

Kissinger talaði fyrr í dag á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) í borginni Davos í Sviss. Þar hvatti hann Bandaríkin og Vesturlönd til að leitast ekki eftir vandræðalegum ósigri fyrir Rússland og varaði við því að það gæti haft slæm áhrif á langtímastöðugleika í Evrópu.

Kissinger sagði að Vesturlönd ættu að muna hvert mikilvægi Rússlands væri fyrir Evrópu og að þau ættu ekki að gleyma sér í hita augnabliksins.

Afturhvarf til óbreytts ástands

„Viðræður þurfa að hefjast á næstu tveimur mánuðum áður en það skapar sviptingar og spennu sem ekki verður auðveldlega sigrast á. Helst ætti deililínan að vera afturhvarf til óbreytts ástands,“ hefur Daily Telegraph eftir Kissinger. „Að reka stríðið áfram umfram það myndi ekki snúast um frelsi Úkraínu, heldur væri það nýtt stríð gegn Rússlandi sjálfu.

Kissinger átti við að koma þyrfti aftur á því ástandi þegar Rússar stjórnuðu formlega Krímskaganum og stjórnuðu óformlega tveimur austustu héruðum Úkraínu, Lúhansk og Dónetsk.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur lagt áherslu á að eitt af skilyrðum hans til að hefja friðarviðræður við Rússa sé að landamæri Úkraínu fyrir innrás verði endurreist.

Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí.
Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí. AFP

Úkraínumenn vilja ekki afsala sér landi

Stór hluti Úkraínumanna er sammála Selenskí um að gefa ekki eftir land í skiptum fyrir frið. Könnun sem var gerð af Alþjóðlegu félagsfræðistofnuninni í Kyiv (e. Kyiv International Institute of Sociology) fyrr í mánuðinum leiddi í ljós að 82 prósent Úkraínumanna eru ekki tilbúnir til að afsala sér neinu af landi Úkraínu, jafnvel þótt það þýði að stríðið dragist á langinn.

Úrtakið innihélt ekki íbúða á svæðum sem ekki voru undir stjórn úkraínskra yfirvalda fyrir 24. febrúar, þ.e. Krím, Sevastópól og sum svæði Dónetsk og Lúhansk-héraðanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert