Árásármaðurinn, sem varð 19 börnum og tveimur kennurum að bana í grunnskóla í borginni Uvalde í Texas í gær, sendi skilaboð á Facebook stuttu fyrir skotárásina þar sem hann sagðist ætla að skjóta á grunnskóla.
Ríkisstjóri Texas, Greg Abbott, greindi frá þessu á blaðamannafundi nú síðdegis.
Sagði hann árásármanninn hafa fyrst sent skilaboð á Facebook hálftíma áður en skotárásin átti sér stað. Í fyrstu færslunni stóð: „Ég ætla að skjóta ömmu mína.“
Síðan hafi hann skrifað: „Ég skaut ömmu mína“ og „ég ætla að skjóta á grunnskóla.“
Kom einnig fram í máli Abbott að árásármaðurinn hafi skotið ömmu sína í andlitið áður en hann fór í grunnskólann. Að sögn Abbott mun hún síðan hafa hringt í lögreglu, árásármaðurinn hafi flúið, lent í árekstri við bíl fyrir utan skólann og síðan farið inn í skólann.
Uppfært kl. 21.34
Upphaflega stóð í fréttinni að árásarmaðurinn hefði sett færslu á Facebook um áform sín en síðan þá hefur Meta, móðurfyrirtæki Facebook, leiðrétt orð ríkisstjórans og sagði fyrirtækið árásarmanninn hafa sent upplýsingar um áform sín í einkaskilaboðum.