Árásin andlegri heilsu en ekki byssu að kenna

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas.
Greg Abbott, ríkisstjóri Texas. AFP

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, kenndi slæmri andlegri heilsu árásarmannsins, ekki skotvopni hans, um skotárásina í Uvalde í Texas þar sem 19 börn og tveir fullorðnir létust.

Á blaðamannafundi nú síðdegis sagðist Abbott hafa rætt lengi við bæði lögreglustjóra Uvalde og bæjarstjóra sem báðir hafi sagt honum að geðsjúkdómar væru vandamál í bænum. Síðan hafi þeir útskýrt umfang geðheilbrigðisáskorana sem þeir standa frammi fyrir í samfélaginu og að þörf væri fyrir frekari stuðning við geðheilbrigðisþjónustu á svæðinu.

Kemur fram í frétt CNN um málið að stuttu áður hafi Abbott sagt byssumanninn hafa notað AR-15 riffil og að ekki væri vitað til þess að hann hefði glímt við geðsjúkdóma.

Staða geðheilbrigðismála eina breytingin

Þegar blaðamaður spurði síðar hvernig 18 ára maður hefði getað keypt skotvopn, sagði Abbott að það væri „geðheilbrigðisvandamál“ þegar einhver notar byssu til að skjóta einhvern annan.

Abbott sagði blaðamanninum að hugsa um það að síðustu 60 ár hefði 18 ára maður getað keypt riffil í Texas og á þeim tíma hafi atvik eins og þessi ekki átt sér stað. „Hvers vegna höfum við ekki lent í skotárásum í skóla meirihluta þessara 60 ára og hvers vegna gerum við það núna?“ spurði ríkisstjórinn.

„Það eina sem hefur verulega breyst er staða geðheilbrigðismála í samfélaginu okkar. Það sem ég veit er að það erum við sem ríki, við sem samfélag, sem þurfum að vinna betur í geðheilbrigðismálum. Allir sem skjóta einhvern annan eiga í erfiðleikum með andlega heilsu, punktur,“ sagði Abbott.

Beto O'Rourke talar við fjölmiðla eftir fundinn.
Beto O'Rourke talar við fjölmiðla eftir fundinn. AFP

Sagði árásina fyrirsjáanlega

Meðan á ræðu Abbott stóð truflaði fyrrverandi þingmaður Texas og mikill talsmaður eftirlits með byssum, Beto O’Rourke, blaðamannafundinn og sagði: „Þú ert ekki að gera neitt, þú ert að bjóða okkur ekkert.”

„Þú sagðir að þetta væri ekki fyrirsjáanlegt, þetta er algjörlega fyrirsjáanlegt þegar þú velur að gera ekki neitt,“ öskraði hann og bætti við: „Þetta er þér að kenna.“

Beto O'Rourke truflar blaðamannafundinn.
Beto O'Rourke truflar blaðamannafundinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert