„Við skiptum um stað, bæ, fjölda látinna og særðra. En fasti punkturinn er sá að mannslíf týnast, fólk sem ekki er hægt að færa okkur aftur og þjóðin situr eftir dofin,“ skrifar Tyler Weyant, blaðamaður hjá Politico, um skotárásina í barnaskóla í Uvalde í Texas í gær þar sem að minnsta kosti 19 börn á aldrinum 7 til 10 ára létu lífið og tveir fullorðnir einstaklingar.
Ungur karlmaður gekk þar fram þungvopnaður eftir að hann hafði skotið ömmu sína.
„Fjöldaskotárásir eru orðnar að harmleiki Bandaríkjanna sem sífellt eru afritaðar og framkallaðar á nýjan leik,“ skrifar Tyler.
Einungis 10 dögum áður en byssumaðurinn í Texas hóf skotárás sína í gær gerði annar ungur karlmaður slíkt hið sama í Buffalo í New-York ríki.
Oliver Darcy, blaðamaður hjá CNN, segir að atburðirnir séu eins og þeir séu eftir uppskrift.
„Fyrst koma fregnir af skotárás, síðan berast upplýsingar um fallna og slasaða, þar á eftir eru gefnar út upplýsingar um árásarmanninn og hvata hans og loks er hinum látnu vottuð virðing. Á meðan kallar fólk eftir því að Bandaríkin grípi til einhverra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að þessi reglulegu fjöldamorð eigi sér stað á sama tíma og á [fréttastofu] Fox stíga fram persónur og leiðtogar innan repúblikanaflokksins sem krefjast þess að árásin sé ekki gerð „pólitísk“,“ skrifar Darcy.
Kollegi hans, fréttamaðurinn Don Lemon, sagði á CNN í gær að ekkert sé nokkurn tímann gert til þess að sporna við skotárásunum.
„Og við munum vera hér aftur. Syrgjandi að nýju, vegna annars bæjar.“