Að minnsta kosti nítján börn og tveir fullorðnir eru látnir eftir skotárás á grunnskóla í Uvalde í suðurhluta Texas í Bandaríkjunum.
Lögreglu barst fyrst tilkynning um árásina skömmu fyrir hádegi að staðartíma á þriðjudag. Nemendur við Robb-grunnskólann eru um 500 talsins og á aldrinum sjö til tíu ára.
Árásarmaðurinn hóf skothríð við grunnskólann um klukkan 11.30 og var síðar skotinn til bana af lögreglu. Talið er að hann hafi myrt ömmu sína áður en hann keyrði síðan að skólanum, klessti bifreið sína og gekk síðan inn í skólann vopnaður hálfsjálfvirkum AR-15-riffli og skammbyssu. Árásarmaðurinn, sem var 18 ára og hefur verið nafngreindur sem Salvador Ramos, var einnig klæddur skotheldu vesti og hafði meðferðis töluvert magn skotfæra.
Salvador var nemandi við menntaskólann í Uvalde. Talið er að hann hafi staðið einn að árásinni.
Á meðal fórnarlamba árásarinnar var kennari við skólann, Eva Mireles, sem kenndi fjórða bekk. Fjölmiðlar vestanhafs segja að Mireles hafi verið móðir háskólanema og stundað útihlaup og fjallgöngur í frítíma sínum.
Auk hinna látnu er talið að fjöldi hafi særst í árásinni, þeirra á meðal tveir lögreglumenn sem voru fluttir á sjúkrahús. Ástand þeirra er talið stöðugt. Hið minnsta þrettán börn voru flutt á sjúkrahús með sjúkrabílum. 66 ára gömul kona og tíu ára stúlka eru þungt haldnar á gjörgæslu.
Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði bandarísku þjóðina á þriðjudagskvöld þar sem hann kallaði fyrst og fremst eftir strangari löggjöf um skotvopn.
„Hversu mörg lítil börn munu verða vitni að því sem gerðist, sjá vini sína deyja, líkt og þau væru á vígvelli, almáttugur. Þau munu búa við þetta það sem eftir lifir,“ sagði Biden í ávarpi sínu.
Skotárásir í bandarískum skólum hafa verið tíðar síðustu áratugi. Alls voru 26 slíkar árásir framdar á síðasta ári og viðbragðsæfingar vegna mögulegra skotárása eru tíðar innan bandarísks skólakerfis.
Árásin í Uvalde á þriðjudag er ein sú mannskæðasta sem orðið hefur í bandarískum skóla. Mannskæðasta skólaskotárásin varð árið 2012 þegar 26 létust í Sandy Hook-grunnskólanum. Á meðal fórnarlambanna voru 20 börn á aldrinum fimm til sex ára.